Fótbolti

Sú leikjahæsta leggur skóna á hilluna og klárar læknanámið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Linda Sällström var fyrirliði finnska landsliðsins á Evrópumótinu í sumar.
Linda Sällström var fyrirliði finnska landsliðsins á Evrópumótinu í sumar. Getty/ Jussi Eskola

Þetta var tímamótalandsleikjahluggi fyrir finnska kvennalandsliðið í fótbolta. Finnsku konurnar töpuðu reyndar á móti Danmörku í umspili A-deildarinnar en þær voru þarna að kveðja sinn dyggasta þjón.

Linda Sällström er sannkölluð goðsögn í finnskum fótbolta en hún er sú hefur bæði spilað flesta leiki og skorað flest mörk fyrir finnska kvennalandsliðið.

Sällström er alls með 64 mörk í 155 landsleikjum. Hún hefur nú tilkynnt að hún sé hætt í atvinnumennsku í fótbolta og hætt í landsliðinu.

Fjórða ár í skurðlækningum

Hún er vissulega orðin 37 ára gömul en aðalástæðan er þó að Sällström er að hefja krefjandi fjórða ár sitt sem læknanemi í skurðlækningum.

Sällström sagðist við tímamótin að hennar vildi vera minnst sem „öflugs markaskorara sem einnig barðist fyrir mannréttindum,“ eins og hún orðaði það. Hún kom út úr skápnum og hefur barist fyrir réttindum samkynhneigðra í heimalandinu.

Sällström hefur verið hluti af finnsku landsliði sem hefur tekið afstöðu til að styðja önnur kvennalið í fótbolta og gagnrýnt óréttlæti í íþróttinni heima fyrir.

Sällström hefur spilað stærstan hluta ferils síns í sænsku deildinni þar sem hún spilaði fyrir Djurgården (2008–09), Linköping (2010–14) og Vittsjö (2015–18 og 2022–25). Hún spilaði einnig með franska liðinu Paris FC frá 2018 til 2021 og byrjaði feril sinn með Tikkurilan Palloseura í heimalandinu.

Sleit þrisvar krossband

Sällström stefnir nú á skurðlækningar og hver veit nema að hún sérhæfi sig í krossbandsslitum. Þar hefur hún mikla reynslu eftir að hafa slitið krossband þrisvar sinnum á ferlinum.

Hún reyndi að læra læknisfræði við Háskólann í Linköping samhliða knattspyrnuferlinum en hætti í námi til að einbeita sér að íþróttaferlinum. Árið 2015 reyndi hún aftur og hefur síðan þá stundað læknisfræðinám í hlutastarfi við Háskólann í Lundi, nálægt félaginu sínu í Vittsjö og heimili sínu í Hässleholm. Nú er komið að nýjum kafla í lífinu og að klára læknisnámið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×