Bíó og sjónvarp

„Fal­legasti drengur í heimi“ er látinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Björn Andrésen varð heimsfrægur árið 1971 og beið þess aldrei bætur.
Björn Andrésen varð heimsfrægur árið 1971 og beið þess aldrei bætur. Getty

Sænski leikarinn Björn Andrésen, sem varð heimsfrægur sem „fallegasti drengur í heimi“ þegar hann lék í kvikmyndinni Dauðinn í Feneyjum árið 1971, er látinn, 70 ára að aldri.

Leikstjórarnir Kristian Petri og Kristiana Lindström, sem gerðu heimildarmynd um líf Andrésen árið 2021, greindu Dagens Nyheter frá andláti hans í gær. 

Þar kemur fram að hann hafi látið lífið á laugardag en ekki liggur fyrir hver dánarorsök hans var.

Hlutverkið sem breytti öllu

Björn Andrésen fæddist í Stokkhólmi árið 1955 og átti erfiða æsku. Þegar hann var tíu ára lést faðir hans í slysi og í kjölfarið stytti móðir hans sér aldur. Eftir það ólst Björn upp hjá ömmu sinni sem ýtti honum út í fyrirsætustörf og leiklist.

Björn í Mallorca vegna frumsýningar heimildarmyndarinnar Fallegasti drengur í heimi árið 2021.Getty

Frumraun Andrésen á stóra skjánum var En kärlekshistoria (1970), sem var jafnframt fyrsta kvikmynd sænska leikstjórans Roy Andersson, en Björn var einungis í smáhlutverki þar.

Önnur myndin sem Björn lék í var Dauðinn í Feneyjum (1971) eftir ítalska leikstjórann Luchino Visconti. Myndin fjallar um tónskáldið Gustaf von Aschenbach sem verður hugfanginn af táningnum Tadzio, sem fimmtán ára Andrésen lék.

Björn varð í kjölfarið heimsfrægur, sérstaklega eftir að Visconti lýsti honum sem „fallegasta drengi í heimi“ á blaðamannafundi á kvikmyndahátíðinni í Cannes. 

Jafnaði sig aldrei fyllilega

Athyglin og umfjöllunin sem fylgdi hlutverkinu átti þó eftir að reynast honum illa.

„Hvað ferilinn og lífið varðar þá fokkaði hún upp fullt af hlutum,“ sagði Andrésen um reynslu sína af myndinni.

Visconti kveikir í sígarettu fyrir hinn unga Andrésen.Getty

Heimildarmyndin The Most Beautiful Boy in the World kom út 2021 og fjallar um ævi og feril Andrésen og sérstaklega áhrifin sem Dauðinn í Feneyjum hafði á hann. Þar er sýnt frá áheyrnarprufu Andrésen þar sem hann sat fyrir ber að ofan fyrir Visconti.

„Mér fannst það óþægilegt þegar þeir báðu mig um að fara úr skyrtunni,“ sagði hann um prufuna í viðtali við Variety 2021.

„Ég var ekki tilbúinn fyrir þetta allt saman. Ég man þegar hann bað mig um að pósa með annan fótinn á veggnum, ég hefði aldrei staðið svona. Þegar ég horfi til baka sé ég að tíkarsonurinn kynlífsvæddi mig,“ sagði hann þá.

Eftir Dauðann í Feneyjum fór Andrésen til Japan þar sem hann varð að poppstjörnu og var eltur á röndum af æstum aðdáendum. Hann hélt áfram að leika í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum með reglulegum millibili, ein síðasta myndin sem hann lék var Midsommar (2019) eftir Ari Aster.

Andrésen skilur eftir sig dóttur, sem hann átti með fyrrverandi konu sinni, ljóðskáldinu Susanna Roman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.