Innlent

Ástar­bréf eru vel­komin á héraðs­skjala­söfn landsins

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðmunda Ólafsdóttir, yfirskjalavörður á Héraðsskjalasafns Árnesinga var gestur á opnu húsi hjá eldri borgurum á Selfossi en fyrirlesturinn kallaði hún „Skjölin hennar ömmu“.
Guðmunda Ólafsdóttir, yfirskjalavörður á Héraðsskjalasafns Árnesinga var gestur á opnu húsi hjá eldri borgurum á Selfossi en fyrirlesturinn kallaði hún „Skjölin hennar ömmu“. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikilvægt er að varðveita einkaskjöl fólks sem er látið, skjöl félaga og samtaka og skjöl fyrirtækja. Þetta segir yfirskjalavörður Héraðsskjalasafns Árnesinga en safnið fær mikið af skjölum til varðveislu en það tekur við pappírs skjölum, ljósmyndum, hljóðupptökum og myndböndum eins og úr dánarbúum.

Guðmunda Ólafsdóttir, yfirskjalavörður á Héraðsskjalasafns Árnesinga var gestur á opnu húsi hjá eldri borgurum á Selfossi á fimmtudaginn en fyrirlesturinn kallaði hún „Skjölin hennar ömmu“. Hún segir mjög mikilvægt að fólki skili skjölum á skjalasöfn landsins frekar en að láta þau glatast.

„Já, skjöl skiptast í tvo flokka en það eru einkaskjöl og opinber skjöl og það er mjög mikilvægt að safna einkaskjölum ekki síður en þessum opinberu og ég var bara svona í rauninni að fara yfir með fólki hvernig á að skila skjölum, hverju er gott að skila, hverju á ekki að henda og hverju kannski mætti henda. Við viljum endilega fá einkaskjöl til okkar á skjalasöfnin,“ segir Guðmunda og bætir við að fólk sé ótrúlegt duglegt að koma með allskonar einkaskjöl á Héraðsskjalasafn Árnesinga, sem er til húsa á Selfossi.

„Skjölin hennar ömmu“ var heitið á fyrirlestri Guðmundu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Og við bara hvetjum fólk að hreinsa ekki of mikið úr söfnunum, reyna að hafa heildarmyndina á skjalasöfnunum, ekki taka út þetta skammarlega eða leiðinlega þannig að þetta endurspegli líf fólksins, sem átti skjölin,“ segir Guðmunda.

Hér má sjá hvað átt er við með einkaskjölum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað verður svo um skjölin á héraðsskjalasöfnunum?

„Þetta er allt skráð og pakkað og sett niður í skjalageymslur hjá okkur. Svo fer skjalaskráin á vefinn þannig að allir geta skoðað hvað er komið til okkar og fengið svo að sjá það á lestrarsal“.

Ein af glærunum á fundinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvað með öll gömlu ástarbréfin, viltu fá þau?

„Já, endilega, við höfum mjög gaman af eldri ástarbréfum en við erum ekki að fara að opinbera þau á netinu en það er gott að hafa þau til að skoða tíðarandann á hverjum tíma,“ segir Guðmunda.

Mjög góður rómur var gerður af erindi Guðmundur enda fjölmargir, sem mættu til að hlusta á hana.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nokkrar hressar kvenfélagskonur í Kvenfélagi Selfossi, sem sjá alltaf um veitingar á opnu húsinu. Nú voru það vöfflur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimasíða safnsins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×