Fótbolti

FH - Fram: 3-4 | Þrenna Sigurðar Bjarts dugði skammt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði þrjú mörk en þurfti samt að sætta sig við tap.
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði þrjú mörk en þurfti samt að sætta sig við tap. Sýn Sport

Fram lyfti sér upp í 5. sæti Bestu deildarinnar með góðum útisigri í FH í lokaumferð deildarinnar. Leikurinn var kveðjuleikur Björns Daníels Sverrissonar sem fékk heiðursskiptingu í síðari hálfleik.

Fyrir leikinn í dag voru FH og Fram jöfn að stigum í 5. - 6. sæti Bestu deildarinnar og höfðu að litlu að keppa nema þá að ná áðurnefndu 5. sæti.

Leikurinn var frábær skemmtun þó fyrsta markið hafi ekki komið fyrr en á 38. mínútu. Það skoraði Sigurður Bjartur Hallsson fyrir FH og það var ekki í síðasta sinn sem hann lét að sér kveða í leiknum.

Kenni Chopart jafnaði með skallamarki fyrir Fram fyrir hálfleik þar sem Mathias Rosenörn í marki FH hefði átt að gera mun betur.

Í síðari hálfleik rigndi síðan inn mörkum. Sigurður Bjartur kom FH í forystu á ný á 60. mínútu en Jakob Byström jafnaði metin fyrir Fram sex mínútum síðar eftir mistök í vörn FH. Sigurður Bjartur innsiglaði þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 77. mínútu en Fram skoraði tvö mörk á lokakaflanum og tryggði sigurinn.

Már Ægisson jafnaði 3-3 þegar hann fylgdi á eftir skoti sem Rosenörn varði og Kristófer Konráðsson tryggði Fram sigurinn með marki beint úr aukaspyrnu á lokamínútunni.

4-3 sigur Fram staðreynd sem þar með lýkur keppni í 5. sæti með 36 stig en FH endar í 6. sæti með 33 stig. Björn Daníel Sverrisson var tekinn af velli á 56. mínútu en hann leggur skóna á hilluna eftir tímabilið og stóðu FH-ingar í stúkunni upp og þökkuðu Sigurði Bjarti fyrir hans framlag.

Þá var þetta sömuleiðis síðasti leikur Heimis Guðjónssonar sem þjálfari FH en fastlega er búist við að Jóhannes Karl Guðjónsson taki við liðinu í hans stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×