Innlent

Neita öllum á­sökunum um sam­ráð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fyrirtækin Terra og Kubbur eru grunuð um samráð.
Fyrirtækin Terra og Kubbur eru grunuð um samráð. Terra/Kubbur

Staðfest er að sex voru handteknir en síðan sleppt eftir skýrslutöku vegna meintra brota fyrirtækjanna Terra og Kubbs á samkeppnislögum. Forráðamenn Kubbs hafna öllum ásökunum.

Samkeppniseftirlitið birti í gær tilkynningu á vef sínum þar sem greint var frá að embætti héraðssaksóknara hefði framkvæmt húsleitir og aðrar aðgerðir til að afla gagna og upplýsinga vegna meints samráðs fyrirtækjanna Terra og Kubbs. Bæði fyrirtækin sjá um sorphirðu og endurvinnslu úrgangs.

Alls tóku þrjátíu starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, héraðssaksóknara og Samkeppniseftirlitsins þátt í aðgerðunum. 

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari gat ekki veitt viðtal þegar fréttastofa falaðist eftir því en staðfesti að sex hafi verið handteknir en sleppt að lokinni skýrslutöku. 

Kubbur birti tilkynningu á vef sínum í morgun þar sem fyrirtækið hafnar öllum ásökunum. Þar er húsleit hjá fyrirtækinu staðfest sem og að stjórnendur Kubbs hafi verið yfirheyrðir. Þá gaf Terra út tilkynningu í gær þar sem kom fram að málið kæmi þeim á óvart en bæði fyrirtæki segjast vinna með yfirvöldum að því að upplýsa málið.

Framkvæmdastjóri Kubbs vildi ekki veita fréttastofu viðtal í morgun og þá hefur ekki náðst í forráðamenn Terra.

Einar Örn stærsti einstaki hluthafinn

Fyrirtækið Terra, sem áður hét Gámaþjónustan, er með starfsstöðvar á átta stöðum um allt land og sér meðal annars um sorphirðu í Vestmannaeyjum og Akureyri og rekur endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. 

Fyrirtækið er í eigu fjölda lífeyrissjóða og þá er Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Play, stærsti einstaki hluthafinn í gegnum félagið GÞ Holding.

Fyrirtækið Kubbur er með bækistöðvar sínar á Ísafirði og sinnir sorphirðu víða á Vestfjörðum, Múlaþingi og í Fjarðabyggð. Þá tók Kubbur við sorpþjónustu í Kópavogi á síðsta ári.


Veistu meira um málið? Sendu línu á ritstjorn@visir.is eða hafðu samband á visir.is/frettaskot. Fullum trúnaði heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×