Handbolti

Stórar breytingar á Evrópu­keppnum í hand­bolta

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur tvisvar unnið Meistaradeild Evrópu með Magdeburg og í bæði skiptin verið valinn bestur í úrslitunum í Köln. Frá og með næstu leiktíð tekur keppnin breytingum en úrslitin ráðast sem fyrr í Köln.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur tvisvar unnið Meistaradeild Evrópu með Magdeburg og í bæði skiptin verið valinn bestur í úrslitunum í Köln. Frá og með næstu leiktíð tekur keppnin breytingum en úrslitin ráðast sem fyrr í Köln. Getty/Jürgen Fromme

Handknattleikssamband Evrópu hefur ákveðið að gera umtalsverðar breytingar á Meistaradeild og Evrópudeild karla frá og með næstu leiktíð.

Margir af bestu handboltamönnum Íslands spila í þessum keppnum og íslensk félagslið hafa einnig verið að gera sig gildandi í Evrópudeildinni á undanförnum árum.

Nú hefur verið ákveðið að fjölga liðum í Meistaradeildinni úr 16 í 24 og munu þau byrja á að spila í sex fjögurra liða riðlum.

Efstu tvö lið úr hverjum riðli komast svo áfram í aðalhluta Meistaradeildarinnar, þar sem spilað verður í tveimur sex liða riðlum. Efstu fjögur lið úr hvorum riðli komast svo áfram í 8-liða úrslit og keppninni lýkur sem fyrr með fjögurra liða úrslitaveislu í Köln.

Taplið úr Meistaradeild bætast í Evrópudeild

Hætt verður með undankeppni í Evrópudeildinni og munu þess í stað 32 lið hefja leik í átta fjögurra liða riðlum.

Tvö lið komast áfram úr hverjum riðli í útsláttarkeppni en þangað koma líka liðin tólf sem enduðu í 3. eða 4. sæti í fyrri riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Alls hefja því 28 lið leik í útsláttarkeppninni, þar sem leikið verður heima og að heiman, og komast 14 sigurlið áfram í 16-liða úrslit. Við þau bætast svo liðin tvö sem enda í 5. sæti í seinni riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Það verður svo ákveðið í desember hvernig aðildarþjóðum EHF verður úthlutað sætum í keppnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×