Innlent

Nýr land­nemi á Ís­landi ratar í heimspressuna

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
FotoJet (78)

Fréttir af komu moskítóflugunnar til Íslands hafa nú ratað í heimspressuna. Fjölmiðlar í Bretlandi og Danmörku hafa meðal annars greint frá komu þessa nýja landnema til Íslands í dag og sett í samhengi við áhrif loftlagsbreytinga.

„Þrjár flugur finnast þar sem áður einn af fáum stöðum í heiminum án paddanna,“ segir meðal annars í inngangsorðum fréttar Guardian í Bretlandi, en þar birtist grein um komu moskítóflugunnar til Íslands á netforsíðu blaðsins í dag.

Þar til í þessum mánuði hafi Ísland verið einn af örfáum stöðum í heimi, auk Antartíku, þar sem moskítófluguna var ekki að finna. Nú sé enn eitt vígið fallið og orsökin einkum rakin til loftslagsbreytinga.

Haft er eftir Matthíasi Alfreðssyni hjá Náttúrufræðistofnun að þrjár flugur af tegundinni culiseta annulata hafi fundist í Kiðafelli í Kjós, líkt og Vísir greindi frá í gær. Tegundin sé lífsseig og hörð af sér í kulda og eigi þannig möguleika á að lifa af íslenskan vetur.

Frétt Guardian virðist hafa vakið athygli fjölmiðla á borð við danska ríkissjónvarpið, DR, einnig. „Í fyrsta sinn finnst bitmý á Íslandi,“ segir í fyrirsögn DR og er þar átt við moskítófluguna, sem jafnan er kölluð myg eða stikmyg á dönsku. „Ísland er venjulega þekkt fyrir að vera staður þar sem ferðalangar og aðrir gestir í náttúrunni sleppa við að pakka moskítóspreyi í bakpokann. En nú er útlit fyrir að það muni breytast,“ segir meðal annars í frétt DR þar sem vísað er til umfjöllunar Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×