Enski boltinn

West Ham enn stigalaust á heima­velli á leiktíðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Igor Thiago fagnar marki sínu með Keith Andrews, knattspyrnustjóra Brentford.
Igor Thiago fagnar marki sínu með Keith Andrews, knattspyrnustjóra Brentford. Getty/ James Gill

Brentford sótti þrjú stig á London Stadium í ensku úrvalsdeildinni í kvöld eftir 2-0 sigur á heimamönnum í West Ham.

Þetta var fyrsti heimaleikur West Ham síðan að Nuno Espirito Santo tók við en um leið enn eitt tapið á heimavelli á þessari leiktíð.

Igor Thiago kom Brentford yfir rétt fyrir hálfleik og síðan var annað mark dæmt af honum vegna tæprar rangstöðu rétt á eftir.

Brentford var miklu betri í fyrri hálfleik og átti að vera meira yfir.

Espirito Santo náði aðeins að tala kjark í sína menn í hálfleik því það var allt annað að sjá til liðsins í seinni hálfleiknum. Lánlausir heimamenn náðu þó ekki að ógna marki Brentford verulega.

Það dugði þó skammt og Daninn Mathias Jensen innsiglaði sigurinn í bálokin.

West Ham hefur tapað öllum fimm heimaleikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er eina lið deildarinnar sem hefur ekki náð í stig á heimavelli.

Það þýðir að West Ham situr í næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig.

Brentford komst upp fyrir Newcastle og upp í þrettánda sæti með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×