Innlent

Þurrt og bjart suð­austan til og stinning­skaldi í kortunum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir þurru og björtu veðri á suðaustanverðu landinu í dag.
Gert er ráð fyrir þurru og björtu veðri á suðaustanverðu landinu í dag. Vísir/Vilhelm

Vestanáttin er ríkjandi um landið í dag, 8 til 15 metrar á sekúndu en hægari vindur þó sunnan heiða. Skýjað og dálítil væta samkvæmt veðurspá, en þurrt og bjart veður á suðaustanverðu landinu. Lægir síðdegis. Hiti í dag verður á bilinu 6 til 14 stig, hlýjast suðaustan til. Kaldi eða stinningskaldi er í kortunum norðvestanlands síðar í vikunni.

„Hæð yfir Skotlandi og lægð norðaustur í hafi beina til okkar mildri vestanátt. Það er nokkuð hvasst á norðanverðu landinu, en yfirleitt mun hægari vindur syðra. Víða súld eða lítilsháttar rigning í dag, en lengst af léttskýjað á Austfjörðum og Suðausturlandi. Lægðin fer austur á bóginn og það fer að lægja seinni partinn þegar hún fjarlægist,“ segir meðal annars í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Hæglætisveður um landið á morgun, stöku skúri en léttskýjað norðaustan til á landinu og hiti 3 til 10 stig yfir daginn. Á föstudaginn er svo búist við suðvestan kalda eða stinningskalda norðvestan til á landinu, en annars hægari vindur. Léttskýjað fyrir austan en skýjað og dálitlar skúrir vestanlands á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×