Fótbolti

Úkraína hélt sér fyrir ofan Ís­land

Sindri Sverrisson skrifar
Ruslan Malinovskyi hefur verið frábær fyrir Úkraínu í þessari landsleikjatörn.
Ruslan Malinovskyi hefur verið frábær fyrir Úkraínu í þessari landsleikjatörn. Getty/Jakub Porzycki

Úkraína er áfram í 2. sæti í riðli Íslands í undankeppni HM karla í fótbolta, eftir 2-1 sigur gegn Aserbaísjan á heimavelli sínum í Póllandi.

Úkraína er því með sjö stig eftir fjórar umferðir af sex í D-riðli, þremur stigum á eftir Frakklandi en þremur fyrir ofan Ísland, eftir jafntefli Íslendinga og Frakka á Laugardalsvelli.

Ruslan Malinovskyi, sem var sjóðheitur á Íslandi í 5-3 sigri Úkraínu á föstudaginn og skoraði þá tvö mörk, skoraði sigurmark Úkraínu í kvöld um miðjan seinni hálfleik, eftir frábæran samleik.

Oleksii Hutsuliak hafði komið Úkraínu í 1-0 í fyrri hálfleik en Aserar jöfnuðu metin þegar Vitaliy Mykolenko varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Nazar Voloshyn virtist hafa komið Úkraínu í 3-1 seint í leiknum en markið var dæmt af eftir myndbandsskoðun.

Ísland vann Aserbaísjan 5-0 og er enn með betri markatölu en Úkraína (+2 gegn +1), fyrir síðustu tvær umferðirnar í nóvember. Ísland sækir þá Asera fyrst heim og mætir svo Úkraínu í Póllandi en Úkraína fer fyrst til Frakklands. Verði lið jöfn að stigum ræður markatala lokastöðu en ekki innbyrðis úrslit, svo ef að Ísland nær að jafna Úkraínu að stigum eru yfirgnæfandi líkur á að Ísland endi ofar vegna markatölu.

Sigurlið riðilsins kemst beint á HM en liðið í 2. sæti fer í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×