Innlent

„Ég hef aldrei skorast undan neinu“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ingibjörg Davíðsdóttir segir niðurstöður kosninganna ekki vonbrigði. 
Ingibjörg Davíðsdóttir segir niðurstöður kosninganna ekki vonbrigði.  Vísir/Lýður Valberg

„Ég mun fylkja mér bak við nýjan varaformann. Við erum öll að vinna að því að stækka flokkinn og vonandi verður þetta besta leiðin til þess,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir sem laut í lægra haldi gegn Snorra Mássyni í varaformannskjöri á landsþingi Miðflokksins í dag.

Greidd voru 201 atkvæði í varaformannskjörinu. Snorri Másson hlaut 136 atkvæði, Ingibjörg Davíðsdóttir hlaut 64 atkvæði, og einn seðill var auður. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður án mótframboðs. 

„Ég gaf kost á mér vegna þess að ég fékk hvatningu. Ég óska Snorra Mássyni innilega til hamingju með að vera kjörinn nýr formaður Miðflokksins,“ segir Ingibjörg við fréttamann.

Hún segist finna fyrir mjög miklum meðbyr með flokknum um land allt. Hann hafi birst í þeim fjölmörgu samtölum sem hún hafi átt síðustu daga. 

Enn á eftir að velja þingflokksformann, myndirðu sækjast eftir því?

„Fyrst þú spyrð, ég var ekkert búin að hugsa út í það. Það er formaður flokksins sem tekur þá ákvörðun. Ég mun bara hlíta hans ákvörðun í því. Ég hef aldrei skorast undan neinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×