Innlent

„Þetta er pólitísk vakning“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sigmundur Davíð fór yfir víðan völl í ræðu sinni á landsþingi Miðflokksins í dag.
Sigmundur Davíð fór yfir víðan völl í ræðu sinni á landsþingi Miðflokksins í dag. Vísir/Lýður Valberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að ákvarðanataka í stjórnmálum hafi í auknum mæli markast af kerfisrækni, rétttrúnaði og öðrum kreddum í stað almennrar skynsemi. Hann segir mikinn fjölda fólks á öllum aldri hafa gengið til liðs við Miðflokkinn að undanförnu. Um sé að ræða pólitíska vakningu og vinsældir flokksins skýrist af því að hann þori að segja það sem þurfi meðan aðrir þegja.

Þetta kom fram í ræðu Sigmundar á landsþingi Miðflokksins fyrr í dag, þar sem fjallað var meðal annars um skynsemi í stjórnmálum, útlendingamál, hringrás vaxta og verðbólgu, tjáningarfrelsi og fullveldi.

„Þegar skynsemin víkur fyrir kreddum, gerast hins vegar mistök, og oft eru það fyrirsjáanleg mistök. Verst er þegar menn gera fyrirsjaanleg mistök með opin augum,“ sagði Sigmundur og tiltók ýmis atriði sem hann taldi fyrirsjáanleg mistök á liðnum árum.

„Það voru fyrirsjáanleg mistök að setja ný lög um útlendinga og gera aðrar ráðstafanir sem veiktu landamæri Íslands og gerðu innflytjendamál á þessu fámenna landi, stjórnlaus.„

„Það voru fyrirsjáanleg mistök að ætla setja reglur um það hvernig fólk eigi tjá sig, og hugsa, og senda alla landsmenn á innrætingarnámskeið.“

„Og loks eru það sannarlega fyrirsjáanleg mistök, að ætla eyða óendanlega miklum peningum skattgreiðenda, í svokallaða borgarlínu, sem hefur ekki annað hlutverk en að þrengja að umferðinni, og réttlæta bílastæðaleysi, á hinum rándýru þéttingarreitum borgarinnar.“

Velferðarkerfi og opin landamæri ósamrýmanleg

Varðandi útlendingamálin sagði Sigmundur að ekkert samfélag fáist þrifist, hafi það ekki vilja til að vernda hópinn. Öflugt velferðarkerfi og opin, eða lek landamæri, séu ósamrýmanleg.

Þá hafi straumur hælisleitenda til Vesturlanda margfaldast og eðli hans breyst á liðnum árum, frá því þjóðir komu sér saman um að aðstoða flóttamenn eftir seinni heimsstyrjöldina.

„Hugsunin var sú að fólk sem væri að flýja hörmungar stríðs, gæti leitað skjóls í nágrannaríkjunum, og svo vonandi snúið aftur heim.“

„Nú hafa hins vegar hættuleg gengi glæpamanna, gert velvild Vesturlanda að söluvöru. Hafa selt væntingar um betri lífskjör, í móttökulöndunum, og ætlað þeim að uppfylla þær væntingar.“

„Þetta er ekki samsæriskenning, þetta er viðurkennd staðreynd.“

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×