Körfubolti

Ein frægasta og ástsælasta stuðnings­konan látin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nunnan systir Jean Dolores Schmidt náði því að verða 106 ára gömul.
Nunnan systir Jean Dolores Schmidt náði því að verða 106 ára gömul. Getty/y Roy Rochlin

Hún hefur ávallt verið í sviðsljósinu í kringum Marsfárið mikla í bandaríska háskólakörfuboltanum en svo verður því miður ekki á næsta ári.

Nunnan systir Jean Dolores Schmidt, hinn ástsæli og langþjónandi prestur karlaliðs Loyola-Chicago-háskólans í körfubolta, lést á fimmtudag.

Systir Jean varð að þjóðhetju í Bandaríkjunum í óvæntri sigurgöngu liðsins í úrslitakeppninni árið 2018.

Andi hennar lifir

„Í mörgum hlutverkum sínum hjá Loyola á meira en sextíu ára tímabili var systir Jean ómetanleg uppspretta visku og náðar fyrir kynslóðir nemenda, kennara og starfsfólks,“ sagði Mark C. Reed, forseti Loyola.

„Þótt við finnum fyrir sorg og söknuði er mikil gleði fólgin í arfleifð hennar. Nærvera hennar var djúpstæð blessun fyrir allt samfélag okkar og andi hennar lifir í þúsundum manns. Til heiðurs henni getum við leitast við að deila með öðrum þeirri ást og samkennd sem systir Jean deildi með okkur,“ sagði Reed.

Systir Jean er fædd Dolores Bertha Schmidt 21. ágúst 1919, en tók sér nafnið systir Jean Dolores árið 1937. Hún hóf störf hjá Loyola-Chicago árið 1991. Þremur árum síðar varð hún hluti af körfuboltaliðinu, fyrst sem námsráðgjafi áður en hún tók við hlutverki prests.

Lét af störfum í ágúst

Heilsubrestur varð til þess að hún lét af störfum í ágúst. Hún lést síðan á fimmtudaginn 106 ára gömul.

Hún var aðdáandi númer eitt hjá Ramblers og það sást vel á NCAA-mótinu 2018 þegar liðið fór í ótrúlega sigurgöngu í úrslitakeppnina.

Systir Jean, þá 98 ára, var með þeim í hverju skrefi, bæði fyrir liðið, og andstæðingum þess, fyrir hvern leik og hvatti Ramblers til að spila af krafti, spila saman og spila af skynsemi.

Það vakti líka athygli að hún leikgreindi bæði liðið sitt og mótherja og fræddi þjálfarana um marga hluti á körfuboltasviðinu.

Ótrúleg manneskja

„Hún er ótrúleg manneskja,“ sagði stjörnuleikmaður Loyola-Chicago, Clayton Custer, á sínum tíma. Aðdáendur um allan háskólaboltann, og víðar, voru sammála.

Hún varð heimsfræg í sigurgöngu Ramblers. Bobblehead-dúkkur og íþróttafatnaður með systur Jean seldust hratt upp. Hún var viðfangsefni óteljandi sjónvarpsviðtala um allt land og það voru jafnvel haldnir blaðamannafundir fyrir hana fyrir leiki.

Í tapinu gegn Michigan í Alamodome í San Antonio stóð á stuttermabolum „Vinnið einn fyrir nunnuna!“ og skilti í áhorfendaskaranum hvatti Wolverines til að hlýða „áætlun Jean.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×