Fótbolti

„Mjög barna­legir og gefum mörk“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísak Bergmann segir íslenska liðið hafa gert barnaleg mistök.
Ísak Bergmann segir íslenska liðið hafa gert barnaleg mistök. skjáskot / Sýn Sport

Ísak Bergmann Jóhannesson segir Ísland hafa gert klaufaleg og barnaleg mistök, en fannst 3-5 tap ekki gefa rétta mynd af leiknum.

Ísak gaf sig á tal við Val Pál Eiríksson á Laugardalsvelli strax eftir leik og var spurður hvað hefði klikkað undir lok leiks, eftir að Ísland hafði jafnað í 3-3 breyttist staðan skyndilega í 3-5.

„Þetta er líka bara yfir allan leikinn, klaufaleg mistök hjá okkur. Við spilum á köflum mjög vel, en spilum líka á köflum mjög illa og gefum þeim ódýr mörk. Gerum kjánaleg mistök, ég á eitt mark í fyrri hálfleik þar sem ég gef boltann. Við skorum þrjú mörk en erum mjög barnalegir og gefum mörk líka. Þetta er mjög svekkjandi og súr tilfinning.“

Klippa: Ísak svekktur eftir kjánaleg mistök

„Fannst þeir skora úr öllu“

Úkraína átti aðeins sex skot í þessum leik og nurlaði ekki nema 0.62 væntum mörkum, en skoraði samt fimm sinnum.

„Mér fannst þeir skora úr öllu fyrir utan teig. Þeir settu hann upp í skeytin, svo klipptu þeir hann eins og ekkert sé. Þeir skora fimm en ég veit ekki hvort það gefur rétta mynd af leiknum, mér fannst bara allt fara inn hjá þeim en við gefum líka kjánaleg mörk og verðum að taka ábyrgð á því og læra af þessu.“

Báðir hálfleikar enduðu illa hjá Íslandi, mjög illa. Staðan var 1-1 á 45. mínútu en Ísland fór 1-3 undir inn í hálfleik og sama var uppi á teningunum undir lok seinni hálfleiks. Ísak segir það súrt og tekur ábyrgð á þriðja markinu sem Úkraína skoraði, rétt eins og Mikael Egill gerir í öðru markinu, en hann skrifar fjórða og fimma markið ekki á neinn sérstakan.

„Ég tek ábyrgð á þriðja markinu og Mikael gerir það líka í öðru markinu, svo gerum við líka mistök í lokin. Svona er þetta, ógeðslega súrt, en við munum greina þetta og gera enn betur næst“ sagði Ísak að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×