Enski boltinn

Haaland og Glasner bestir í septem­ber

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland átti flottan septembermánuð með Manchester City.
Erling Haaland átti flottan septembermánuð með Manchester City. Getty/Marc Atkins

Erling Braut Haaland valinn besti leikmaður septembermánaðar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en besti knattspyrnustjórinn var hins vegar valinn Oliver Glasner hjá Crystal Palace.

Haaland skoraði fimm mörk og gaf eina stoðsendingu í ensku úrvalsdeildinni í september. 

Hann hefur farið á kostum með City á þessu tímabili og er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með níu mörk. Þetta er í fjórða sinn sem Haaland vinnur verðlaunin.

„Ég er mjög ánægður með að vinna þessi verðlaun aftur. Það þýðir alltaf mikið,“ segir Haaland í yfirlýsingu frá Manchester City.

Hinir tilnefndu voru: Daichi Kamada (Crystal Palace), Yankuba Minteh (Brighton), Robin Roefs (Sunderland), Granit Xhaka (Sunderland), Martín Zubimendi (Arsenal).

Um þessar mundir er Haaland í landsliðsverkefni með norska landsliðinu sem mætir Ísrael í undankeppni HM á morgun. Þar mun Haaland bera fyrirliðabandið þar sem Martin Ødegaard er frá vegna meiðsla.

Austurríkismaðurinn Oliver Glasner var valinn besti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar í september eftir að hafa stýrt Crystal Palace taplausu í gegnum mánuðinn. Hann hlýtur verðlaunin í fyrsta sinn á ferlinum.

Glasner stýrði Crystal Palace taplausu í gegnum mánuðinn og liðið lengdi taplausa hrinu sína í 19 leiki í öllum keppnum.

Lið hans hóf septembermánuð á 0-0 jafntefli á heimavelli gegn Sunderland en sýndi fljótt sínar bestu hliðar með 2-1 sigri á West Ham United áður en liðið tryggði sér dramatískan sigur á Liverpool undir lok leiks og var þar með eina taplausa liðið í ensku úrvalsdeildinni í lok mánaðarins.

Glasner er aðeins annar Austurríkismaðurinn til að vinna verðlaunin sem knattspyrnustjóri mánaðarins hjá Barclays, á eftir Ralph Hasenhuttl sem hlaut þennan heiður í júlí 2020 með Southampton.

Aðrir sem komu til greina voru Pep Guardiola hjá Manchester City, Mikel Arteta hjá Arsenal og Régis Le Bris hjá Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×