Fótbolti

Svaka­lega slysalegt klobbamark í undan­keppni HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er alltaf slæmt að fá á sig mark í gegnum klofið, hvað þá eftir laust skot lengst út á kanti.
Það er alltaf slæmt að fá á sig mark í gegnum klofið, hvað þá eftir laust skot lengst út á kanti. Getty/Tim Clayton

Murad Al-Wuheeshi átti örugglega erfitt með að sofna eftir leikinn sinn í gær en Al-Wuheeshi er markvörður og fyrirliði líbíska landsliðsins í fótbolta.

Í gær fékk liðið Græhöfðaeyjar í heimsókn til Trípólí í undankeppni HM í fótbolta.

Al-Wuheeshi er 28 ára gamall og reynslumikill en hann sofnaði algjörlega á verðinum í leiknum.

Sakleysisleg sending kom í átt að marki hans langt utan af kanti. Það hafði enginn áhyggjur af þessum bolta og þar á meðal var Al-Wuheeshi sjálfur.

Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst honum þó að missa þessa sakleysislegu og lausu sendingu í gegnum klofið á sér og í markið. Án efa slysalegasta klobbamark ársins sem má sjá með því að fletta hér fyrir neðan.

Leiknum lauk með 3-3 jafntefli.

Grænhöfðaeyjar eru í efsta sæti riðilsins og með tveggja stiga forskot á Kamerún fyrir lokaumferðina. Líbía er síðan þremur stigum á eftir Kamerún.

Efsta liðið fer beint inn á HM en liðið í öðru sæti fer í umspil. Grænhöfðaeyjar eru í frábærum málum því lokaleikurinn þeirra er á heimavelli á móti neðsta liðinu sem er Esvatíní, áður þekkt sem Svasíland.

Líbía á enn smá möguleika en þarf að treysta á stórsigur á útivelli á móti Máritíus á meðan Kamerún tapar stórt á heimavelli á móti Angóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×