Veður

Urðu fyrir sjóskvettu í beinni

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Veðrið hefur leikið borgarbúa grátt í dag, þar á meðal Harald Ólafsson veðurfræðing. 
Veðrið hefur leikið borgarbúa grátt í dag, þar á meðal Harald Ólafsson veðurfræðing.  Vísir

Gular viðvaranir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu og á suður- og suðvesturhluta landsins. Varað er við mikilli ölduhæð og sjógangi við sjávarsíðuna. Meðan fréttamaður ræddi við veðurfræðing í beinni útsendingu gekk sjór yfir viðtalið. 

„Það er bálhvasst og það er mikill öldugangur. Öðru hverju ganga öldurnar yfir varnargarðinn, það er eiginlega ófært á stígnum,“ sagði Haraldur Ólafsson veðurfræðingur þegar hann ræddi við fréttamann úti á Granda í Kvöldfréttum.

Hann sagði hugsanlegt að tjón yrði úti á Granda, þar sem sjávarstaðan væri enn hækkandi. Þá sagði hann möguleika á að flæða taki inn í hús. 

„En jafnvel þótt menn sleppi í kvöld, þá getur þetta orðið slæmt á morgun með flóðinu í fyrramálið. Þá verður ölduhæðin enn meiri en núna þótt vindurinn verði orðinn eitthvað hægari,“ segir Haraldur. 

Hvað veldur þessu, er sjávarborð að hækka eða er þetta sambland af veðri og öðru?

„Það er ekkert augljóst samhengi við langtímabreytingar í þessu veðri. Svona veður koma alltaf öðru hverju og hafa gert í gegnum alla Íslandssöguna. Sjávarborðið er vissulega að hækka dálítið en það er ekkert augljóst samhengi þarna á milli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×