Fótbolti

Annar fóst­bróðir Messis lætur gott heita

Sindri Sverrisson skrifar
Jordi Alba hefur átt magnaðan feril.
Jordi Alba hefur átt magnaðan feril. Getty/Rich Storry

Spænski bakvörðurinn Jordi Alba hefur nú tilkynnt að hann muni leggja takkaskóna á hilluna í vetur, þegar tímabili hans með Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni lýkur.

Alba, sem er 36 ára gamall, fer því sömu leið og Sergio Busquets sem einnig ætlar að hætta í lok leiktíðar.

Óhætt er að þeir hafi fetað svipaða leið í fótboltanum því þeir léku báðir með óhemju sigursælum liðum Barcelona og Spánar, og eltu svo báðir Lionel Messi til Inter Miami þar sem nú er ljóst að þeir munu ljúka ferlinum.

„Þetta er ákvörðun sem ég hef núna velt vandlega fyrir mér um langa hríð. Mér finnst að núna sé rétti tímapunkturinn til að hefja nýjan kafla í mínu lífi og njóta til fulls tímans með fjölskyldunni minni eftir svo mörg krefjandi ár sem atvinnumaður í fótbolta,“ sagði Alba í tilkynningu á vef Inter Miami.

Úrslitakeppni MLS-deildarinnar verður því lokakaflinn á ferli Alba líkt og Busquets, eftir tvö ár í Bandaríkjunum.

Alba hætti í spænska landsliðinu árið 2023, eftir 93 landsleiki og níu mörk. Þessi magnaði bakvörður varð meðal annars Evrópumeistari með Spáni árið 2012, þar sem hann skoraði í 4-0 sigrinum gegn Ítalíu í úrslitaleik. Hann varð sex sinnum Spánarmeistari með Barcelona og vann Meistaradeild Evrópu árið 2015, eftir að hafa komið til félagsins frá Valencia árið 2012.

Sergio Reguilón, fyrrverandi bakvörður Tottenham, er nú sagður á leið til Inter Miami.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×