Fótbolti

Há­kon Arnar og fé­lagar náðu í ó­vænt stig gegn Evrópu­meisturunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar í leik kvöldsins.
Hákon Arnar í leik kvöldsins. Gerrit van Keulen/Getty Images

Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson var á sínum stað í byrjunarliði Lille þegar liðið náði í 1-1 jafntefli gegn Evrópumeisturum París Saint-Germain í efstu deild franska fótboltans.

Framan af var leikurinn ekki mikið fyrir augað og í raun mjög lokaður. Gestirnir frá París vissulega meira með boltann en hvorugt lið óð í færum í þessum leik. Það kom því ekki á óvart að staðan væri markalaus í hálfleik.

Á endanum var það frábær spyrna vinstri bakvarðarins Nuno Mendes sem kom gestunum yfir. Mendes smurði þá aukaspyrnu upp í hægra markhornið, frábær spyrna og gestirnir komnir í forystu þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður. Strax í kjölfarið var Hákon Arnar tekinn af velli.

Hinn 18 ára gamli Ethan Mbappé, yngri bróðir Kylian hjá Real Madríd, reyndist svo hetja Lille í kvöld. Þegar fimm mínútur voru til loka venjulega leiktíma gaf Hamza Igamane fyrir markið og Mbappé var réttur maður á réttum stað. 

Fram að þessu hafði PSG verið líklegra til að bæta við en Lille að jafna metin. Það var þó ekki spurt að því og staðan orðin 1-1, reyndust það lokatölur kvöldsins.

PSG kemst þar með naumlega í toppsætið á nýjan leik þar sem Marseille er með 15 stig í 2. sætinu en Parísarliðið er með stigi meira þegar sjö umferðir eru búnar. Lille er í 7. sæti með 11 stig.

Í Serie A á Ítalíu gerðu Juventus og AC Milan markalaust jafntefli. Það þýðir að AC er með 13 stig í 3. sæti, tveimur stigum minna en topplið Napoli og AS Roma. Juventus er á sama tíma með 12 stig í 5. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×