Körfubolti

„Var í vímu þarna í smá stund af gleði og æsingi“

Sverrir Mar Smárason skrifar
Styrmir var frábær í kvöld.
Styrmir var frábær í kvöld. Vísir/Jón Gautur

Skagamenn unnu frábæran sigur á Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð Bónus deildar karla í kvöld, 102-92. Skagamenn voru að leika sinn fyrsta leik í efstu deild síðan árið 2000. Styrmir Jónasson var frábær í liði skagamanna og leiddi liðið áfram í upphafi síðari hálfleiks.

„Þetta var bara ótrúleg tilfinning. Ég var í vímu þarna í smá stund af gleði og æsingi. Þetta var geggjað og þetta verður svona bara í allan vetur. Við erum með frábæra stuðningsmenn og þetta drífur okkur áfram,“ sagði Styrmir.

Skagamenn voru undir allan fyrri hálfleikinn og fóru inn í hálfleik með stöðuna 49-54. Þeir komu hins vegar gríðarlega sterkir út í þann síðari og tóku öll völd á vellinum.

„Við töluðum um að taka út skytturnar betur. Þeir voru að fá mjög mikið af opnum skotum í fyrri hálfleik. Við ákváðum bara að standa aðeins nær og gerðum skotin aðeins erfiðari. Það hjálpaði og svo bara orkan frá öllum leikmönnunum sem komu inná var frábær og vann leikinn fyrir okkur,“ sagði Styrmir.

Hópurinn á Akranesi er þéttur og viðbæturnar í vetur hafa komið vel inn. Styrmir gat ekki annað en lofsamað lið sitt eftir svo öflugan sigur og var jákvæður fyrir tímabilinu.

„Við viljum náttúrulega bara halda okkur uppi. Ég elska þessa stráka, er búinn að spila með mörgum þeirra heillengi og þeir sem eru komnir hérna, Darnell, Gojko og Josip eru bara geggjaðir. Svo er Lucien frábær. Þetta er góður hópur og ég held við munum standa okkur mjög vel í vetur,“ sagði Styrmir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×