Innlent

Fram­sóknar­flokkurinn mælist aftur inni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

Framsóknarflokkurinn mælist aftur inni á þingi samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Miðflokkurinn bætir einnig við sig og Samfylkingin trónir enn sem áður á toppnum þó fylgið hafi örlítið dregist saman á milli kannana.

Ríkisútvarpið greinir frá niðurstöðum könnunarinnar en samkvæmt henni mælist Framsókn með 5,8 prósent fylgi en var með 4,5 prósent í síðasta mánuði. Miðflokkurinn bætir við sig og mælist með 11,8 en mældist með 10,7 í síðustu könnun.

V, P og J utan þings

Samfylkingin nýtur mests fylgis og mælist með 34 prósent sem er litlu minna en þau 34,6 prósent sem hún mældist með í síðasta mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn er næststærstur með 19,5 prósent og Viðreisn sá þriðji með 12,6 prósent.

Fylgi Flokks fólksins dregst saman á milli mánaða en hann mælist með 6,9 prósenta fylgi en var með 7,4 prósent í síðustu könnun sem framkvæmd var fyrir mánuði síðan.

Vinstri græn, Píratar og Sósíalistar yrðu allir utan þings samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar og mælast með 3,6 prósent, 2,9 prósent og 2,1 prósent í þeirri röð.

Stærst í öllum kjördæmum

Samkvæmt umfjöllun Ríkisútvarpsins er Samfylkingin með mest fylgi í öllum kjördæmum landsins. Mest er það í Reykjavíkurkjördæmi norður en þar nemur það 43,1 prósenti. Miðflokkurinn er sterkastur í Norðausturkjördæmi með 17,2 en nýtur ekki eins mikils fylgis og Samfylkingin.

Í öllum öðrum kjördæmum er Sjálfstæðisflokkurinn næststærstur. Í Suðurkjördæmi munar litlu á honum og Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þar 24,7 prósenta fylgi og Samfylkingin 25,6. Minnst er fylgi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi þar sem það nemur 13,2 prósentum.

Flokkur fólksins mælist með 13,6 prósenta fylgi í Suðurkjördæmi þar sem það er mest en er annars staðar á landsbyggðinni um 8 prósent og á höfuðborgarsvæðinu um 5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×