Íslenski boltinn

Fengu nóg af skeytingar­leysi og mis­munun

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ásta Hind Ómarsdóttir , Sigríður Dröfn Auðunsdóttir og Þórdís Helga Ásgeirsdóttir eru fyrrverandi leikmenn ÍR en vonast til að félagið taki málefni kvennaliðs þess til endurskoðunar.
Ásta Hind Ómarsdóttir , Sigríður Dröfn Auðunsdóttir og Þórdís Helga Ásgeirsdóttir eru fyrrverandi leikmenn ÍR en vonast til að félagið taki málefni kvennaliðs þess til endurskoðunar. Vísir/Ívar

Allir leikmenn kvennaliðs ÍR í fótbolta eru hættir hjá liðinu. Þær hafi fengið nóg af sinnuleysi og virðingarleysi stjórnenda þess í sinn garð og kornið sem fyllti mælinn var þegar metnaðarfullir þjálfarar liðsins voru reknir.

Leikmenn ÍR, sem lék í 2. deild kvenna í sumar, sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að þeir myndu, allir sem einn, yfirgefa félagið. Knattspyrnudeild ÍR sendi frá sér yfirlýsingu á móti þar sem sagði að fullt kapp væri lagt í að styrkja kvennastarf félagsins.

Leikmenn liðsins segja gremju hafa byggst upp um hríð eftir að bæði karla- og kvennalið ÍR komust upp í Lengjudeild 2023.

Þá hafi mikið púður verið sett í karlaliðið við endurkomuna í B-deild á meðan hafi kvennaliðið staðið eftir afskiptalaust, þjálfari ekki ráðinn fyrr en í janúar 2024 og þá stóðu örfáir leikmenn eftir. Liðið féll í kjölfarið úr Lengjudeildinni og lék því í 2. deild í ár.

Leikmenn hafi verið ánægðir með þjálfara liðsins í sumar, þá Kjartan Stefánsson og Egil Sigfússon, sem hafi haft töluverðan metnað fyrir framhaldinu. Leikmenn hafi skynjað minni metnað hjá stjórninni og uppsögn þjálfaranna tveggja nú í haust hafi verið kornið sem fyllti mælinn eftir langvarandi sinnu- og virðingarleysi stjórnenda.

„Þetta er ekki bara að þeir hafi rekið þjálfarana. Það var spark í andlitið en þetta hefur verið svo margt annað. Grundvallaratriði sem karlaliðið fær sem við þurfum að hlaupa á eftir til að fá. Einfaldir hlutir eins og að vökva grasið fyrir leiki,“ segir Ásta Hind Ómarsdóttir, einn fyrrum leikmanna ÍR, í Sportpakkanum á Sýn í gær.

„Við vorum ekki einu sinni með sjúkraþjálfara. Við þurftum að sækja hann sjálfar og segja stjórninni: Hérna er sjúkraþjálfari fyrir ykkur til þess að ráða, þannig að við getum verið með sjúkraþjálfara,“ bætir hún við.

Sáu ekki annan kost í stöðunni

Leikmenn hefðu viljað fara aðra leið en sáu sér ekki annan kost í stöðunni.

„Vonin okkar var náttúrulega að félagið myndi bregðast við. En mér finnst það hafa gert allt annað en að bregðast við okkar upplifunum og hlustað á okkur,“ segir Sigríður Dröfn Auðunsdóttir, annar fyrrum leikmaður ÍR.

„Við höfum átt mikil samskipti við stjórnina í gegnum tíðina. Við sem höfum verið þarna lengi förum á fundi með þeim reglulega fyrir hvert tímabil. Okkur er alltaf lofað öllu góðu, þeir segjast ætla að bæta sig. En það dugar ekki að segja það, við verðum að fá að sjá það,“ segir Þórdír Helga Ásgeirsdóttir.

Vonast til breytinga

Það hafi því verið afarkostur að yfirgefa félagið, sem margar hverjar hafa leikið með um árabil. Þær vonast til að þetta leiði til þess að félagið taki málin föstum tökum og breyti sinni stefnu.

„ÍR-ingar verða að vita af þessu. Það er ekki sanngjarnt að þeir viti ekki hvað á sér stað þarna. Af því að þetta er ekki í lagi. Stelpur í fótbolta og samfélagið á skilið að vita hvað viðgengst hérna svo að þetta breytist,“ segir Sigríður og bætir við:

„Það er ekki ætlunin okkar að segja að ÍR sé glatað. En við höfum upplifað virðingarleysi og metnaðarleysi. Ég vona að þetta geri það að verkum að loksins rífi félagið sig í gang. Vegna þess að þetta er búið að vera svona alltof lengi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×