Innlent

Enska verði orðin ráðandi í at­vinnu­lífi um miðja öld

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eiríkur Rögnvaldsson hefur áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Í umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 málar hann upp nokkuð dökka mynd af stöðunni eftir tvo til þrjá áratugi.
Eiríkur Rögnvaldsson hefur áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Í umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 málar hann upp nokkuð dökka mynd af stöðunni eftir tvo til þrjá áratugi. Vísir/Lýður Valberg

Prófessor í íslenskri málfræði segir stjórnvöld verða að auka fjárframlög til íslenskukennslu, en ekki draga úr þeim líkt og stefnt sé að. Það sé raunhæfur möguleiki að enska verði orðið aðalsamskiptamál í íslensku atvinnulífi innan fárra áratuga.

Í gær birtist umsögn um fjárlagafrumvarp ársins 2026, sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra lagði fram á þingi fyrr í mánuðinum. Þar er fundið að því að draga eigi úr fjárveitingum til íslenskukennslu útlendinga annars vegar, og inngildingar innflytjenda og flóttamanna hins vegar.

Vakin er athygli á því að fólki með annað móðurmál en íslensku muni fjölga á næstu árum, og hlutfall þess á vinnumarkaði geti verið orðið allt að helmingur eftir tvo til þrjá áratugi. Því sé ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska vera orðin aðalsamskiptamálið í íslensku atvinnulífi.

Fólk læri ensku á undan íslensku

Höfundur umsagnarinnar er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emerítus í íslenskri málfræði.

„Það er náttúrulega mikilvægt að auka framlag til íslenskukennslu útlendinga, og alls ekki að skera niður eins og lagt er til í frumvarpinu,“ segir Eiríkur. 

Ekkert bendi til annars en að innflytjendum, sem nú séu um fjórðungur af vinnuafli hér á landi, haldi áfram að fjölga á næstu árum.

„Þetta fólk, fæst af því hefur ensku að móðurmáli, og margt af því kann ekki ensku þegar það kemur til landsins. En fólkið lærir yfirleitt ensku á undan íslensku.“

Því lengri bið, því erfiðara verkefni

Þetta leiði til þess að enska verði samskiptamál Íslendinga við útlendinga, en einnig á milli útlendinga með mismunandi uppruna. Að enska verði orðin aðalsamskiptamálið í atvinnulífinu innan fárra áratuga sé ekki óraunhæf framtíðarsýn.

„Ef fólk af erlendum uppruna verður helmingur á vinnumarkaði, og það notar ensku í samskiptum sína á milli, á meðan við notum ensku í samskiptum við það, þá bara segir það sig sjálft að þetta hlýtur að enda svona, ef við gerum ekkert. Þetta þarf ekki að enda svona, ef við gerum átak í að kenna íslensku.“

Stjórnmálafólk átti sig ekki á alvöru málsins.

„Eftir því sem líður lengri tími án þess að við gerum átak í þessu, þeim mun erfiðara verður að gera það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×