Veður

Lægða­gangur næstu daga býður upp á sí­gilt haust­veður

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu níu til fimmtán stig, mildast norðan heiða.
Hiti verður á bilinu níu til fimmtán stig, mildast norðan heiða. Vísir/Vilhelm

Nokkrar lægðir munu fara fram hjá landinu næstu daga og bjóða upp á sígilt haustveður.

Á vef Veðurstofunnar segir að í dag verði suðlæg átt, átta til fimmtán metrar á sekúndu, og skúrir, en líkur á stöku eldingum á sunnanverðu landinu. Áfram verður úrkomulítið á Norðurlandi og milt í veðri.

Hiti verður á bilinu níu til fimmtán stig, mildast norðan heiða.

„Dregur úr vindi og skúrum á morgun, en hvessir seinnipartinn og fer að rigna hressilega. Búast má við talsverðri eða mikilli úrkomu sunnantil undir kvöld og um nóttina. Á Norðurlandi er yfirleitt þurrt, en rigning af og til um kvöldið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Sunnan og suðaustan 8-15 m/s og skúrir, en þurrt norðaustanlands. Austlægari og bætir verulega í úrkomu á sunnanverðu landinu seinnipartinn, með talsverðri eða mikilli rigningu suðaustantil, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 9 til 14 stig.

Á föstudag: Suðaustan 13-23, hvassast suðvestantil og allra austast. Talsverð eða mikil rigning, einkum á suðaustanverðu landinu, en úrkomuminna norðaustanlands. Dregur úr vindi og úrkomu seinnipartinn. Hiti 11 til 16 stig.

Á laugardag: Suðlæg átt 5-13 og skúrir, en bjart á Norður- og Austurlandi. Hiti 8 til 13 stig.

Á sunnudag: Suðlæg átt og dálítil væta, en vaxandi suðaustanátt og fer að rigna sunnan- og vestanlands síðdegis. Talsverð eða mikil úrkoma sunnantil um kvöldið. Hiti breytist lítið.

Á mánudag: Suðlæg átt með rigningu, en lengst af þurrt á Norðausturlandi. Talsverð úrkoma suðaustantil framan af degi. Milt í veðri.

Á þriðjudag: Útlit fyrir suðvestanátt með vætu, einkum vestantil á landinu. Heldur kólnandi, einkum norðvestantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×