Innlent

Hver verður for­maður Pírata?: „Ekki séns“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sigurbjörg Erla, Björn Leví og Þórhildur Sunna.
Sigurbjörg Erla, Björn Leví og Þórhildur Sunna. Samsett

Ný stefna var tekin á aðalfundi Pírata í gær þegar tillaga um að taka upp formanns- og varaformannsembætti í flokknum var samþykkt. Enginn hefur stigið fram og sagst vilja leiða flokkinn.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, var lengi andlit flokksins en í samtali við fréttastofu segist hún ekki ætla að bjóða sig fram. Hún sé tekin til starfa á öðrum vettvangi og hafi ekki tíma né áhuga á að taka við slíku embætti.

Þórhildur Sunna, sem hefur lengi talað fyrir því að setja á laggirnar slíka pólitíska stjórn, var þingflokksformaður Pírata 2017-2019 og 2023-2024. Hún var efst á lista fyrir Pírata í Suðvesturkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum en Píratar náði ekki manni inn á þing.

„Ekki séns,“ segir Björn Leví Gunnarsson og bætir við að hans tíma í stjórnmálum sé kominn að lokum. Hann var þingmaður Pírata árin 2017 til árið 2024. Hann leiddi lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður í Alþingiskosningunum árið 2024 en hlaut ekki kjör.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, segist ekki hafa hugað að því hvort að hún myndi bjóða sig fram. Hún telur það samt afar ólíklegt að hún komi til með að sækjast eftir embættinu.

Í viðtali við fréttastofu í gær sagði Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, að hún hefði áhuga á embættinu en situr núna í framkvæmdastjórn flokksins og telur það líklegt að hún vilji heldur halda áfram í því starfi.

Fréttastofa náði ekki í Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×