Innlent

Kourani sótti um náðun af heil­brigðis­á­stæðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kourani á leið í dómsal. Við réttarhöld yfir honum sagði geðlæknir að henn hefði aldrei hitt mann sem stæði svo á sama um annað fólk. Hann væri siðblindur og algerlega sinnulaus um afleiðingar gjörða sinna.
Kourani á leið í dómsal. Við réttarhöld yfir honum sagði geðlæknir að henn hefði aldrei hitt mann sem stæði svo á sama um annað fólk. Hann væri siðblindur og algerlega sinnulaus um afleiðingar gjörða sinna. Vísir

Sjálfstæð náðunarnefnd hefur umsókn frá Mohamad Th. Jóhannessyni, áður Kourani, um náðun af heilbrigðisástæðum til meðferðar. Aðeins ár er liðið frá því að hann hlaut átta ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps og fleiri brot.

Vísir greindi frá því í byrjun vikunnar að Kourani hefði afsalað sér alþjóðlegri vernd á Íslandi. Honum yrði vísað úr landi eftir að hann hefði afplánað helming refsingar sinnar og bannað að koma aftur til landsins í þrjátíu ár.

Beiðni um náðun Kourani af heilbrigðisástæðum liggur fyrir hjá náðunarnefnd sem gefur dómsmálaráðherra rökstuddar tillögur um afgreiðslu slíkra beiðna. Mbl.is sagði frá því í gærkvöldi að ef Kourani yrði veitt náðun gæti hann verið fluttur til Sýrlands strax í næsta mánuði.

Lögmaður Kourani sagði við mbl að hann hefði sótt um náðun hans fyrir nokkrum mánuðum.

Ekki er ljóst hvenær náðunarnefndin tekur beiðnina fyrir. Skipunartími hennar rann út um síðustu mánaðamót en nýbúið er að skipa hana að nýju. Ragnheiður Bragadóttir, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, er formaður nefndarinnar. Bæði formaður náðunarnefdar og varaformaður þurfa að uppfylla skilyrði til að hljóta skipun héraðsdómara og þá skal læknir eiga sæti í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×