Íslenski boltinn

KR geti fallið og Valur að trenda í öfuga átt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Albert sér fyrir sér að þrjú lið eigi möguleika á Íslandsmeistaratitlinum í lokaumferð.
Albert sér fyrir sér að þrjú lið eigi möguleika á Íslandsmeistaratitlinum í lokaumferð.

Nú liggur fyrir hvaða lið leika í efri og neðri hlutanum í úrslitakeppninni í Bestudeild karla. Allt bendir til þriggja hesta kapphlaup um Íslandsmeistaratitilinn.

Víkingar eru efstir í deildinni með 42 stig. Þar á eftir koma Valsmenn með 40 stig, jafnmörg stig og Stjörnumenn. Blikar gerðu jafntefli við Eyjamenn á mánudagskvöldið og eru því sex stigum á eftir Val og Stjörnunni. Á botninum unnu Skagamenn Aftureldingu í gær og sendu Mosfellinga á botninn. ÍA í næstneðsta sætinu með 22 stig en KR-ingar eru með tveimur stigum meira í 10. sætinu. Gríðarleg spenna framundan á toppnum og á botninum.

„Ég horfi á þessi þrjú lið. Afturelding, ÍA og KR og ef maður horfir á Aftureldingu þá þarf maður að leita vel til baka eftir síðasta sigurleik hjá þeim. Þeir eiga þrjá útileiki eftir skiptingu og þeir hafa aðeins fengið fjögur stig á útivelli í sumar þannig að maður hefur miklar áhyggjur af Aftureldingu,“ segir Albert Brynjar Ingason sérfræðingur Sýnar um botnbaráttuna sem framundan er.

„KR getur vissulega fallið, það er ekki hægt að segja annað eftir þessa niðurlægingu 7-0 og talandi um útileiki. Þeir eiga útileiki gegn KA, sem er eitt af betri liðunum í deildinni eins og hún er í dag og síðan útileik gegn ÍA og Vestra.“

En að toppbaráttunni.

„Valsmenn eru að trenda í öfuga átt. Þetta er mikill missir þessir tveir, Fredrick Schram og Partrick Pedersen og svo missa þeir Tómas Bent líka. Hryggurinn er svolítið farinn hjá þeim. Víkingur Stjarnan er strax í annarri umferð og þetta eru bara tvö stig á milli þeirra. Ég get því ekki afskrifað Val. Blikar, það er bara búið. Víkingur og Stjarnan, þetta eru þau lið sem eru að koma heit inn í úrslitakeppnina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×