Innlent

„Fólk hefur hætt eða nánast verið bolað úr starfi síðan hún tók við“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ingibjörg Rósa er fráfarandi starfsmaður á Sólheimum.
Ingibjörg Rósa er fráfarandi starfsmaður á Sólheimum. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður á Sólheimum segir kvíða og óvissu ríkja hjá starfsmönnum stofnunarinnar og að samskipti við framkvæmdastjóra séu erfið. Þá sé ekki hlustað á raddir starfsfólks sem hafi jafnvel hætt eða verið bolað úr starfi sem komi niður á þjónustu við íbúa.

Í skoðanapistli á Vísi í gær lýsti Ingibörg Rósa Björnsdóttir, fráfarandi starfsmaður Sólheima, ófremdarástandi á vinnustaðnum. Starfsfólk treysti ekki yfirstjórn stofnunarinnar og hún lýsti brotthvarfi sínu þaðan við að sleppa frá einangruðu einræðisríki. Hún segir stöðuna á Sólheimum sorglega og að starfsfólk í félagsþjónustu hafi áhyggjur af ástandinu.

„Mjög mikil depurð, mjög mikill kvíði og óvíssa og frá því í janúar hefur fólk verið að líta í kringum sig eftir öðrum störfum. Ekki vegna þess að þau vilji yfirgefa Sólheima, heldur vegna þess að þeim líst ekki á hvað er í gangi þarna. Þeim líst ekki á framtíðina á Sólheimum, þeim líður illa yfir þessu og mörg eiga í erfiðum samskiptum við framkvæmdastjórann,“ sagði Ingibjörg Rósa í samtali við fréttastofu Sýnar.

„Fólk er bara orðið þreytt, kvíðið og illa sofið. Við sjáum að fólk er að fara í veikindaleyfi, fólk sem hefur aldrei farið í veikindaleyfi.“

„Fólk hefur hætt eða verið nánast bolað úr starfi síðan hún tók við“

Umræddur framkvæmdastjóri, Kristín Björg Albertsdóttir, var ráðin til starfa í febrúar en hún hafði starfað áður á Sólheimum. Ingibjörg segir að starfsfólk hafi komið óánægju á framfæri, bæði þegar framkvæmdastjórinn hætti og þegar hún var ráðin á ný. Yfirstjórn hafi ekki hlustað á þeirra raddir.

„Þegar hún var ráðin var okkur sagt að að það væri því hún væri svo góð að spara. Það setur kvíða að öllum, hvernig á að spara og í hverju? Eigum við að hlaupa hraðar?“ segir Ingibjörg.

„Fólk hefur hætt eða nánast verið bolað úr starfi síðan hún tók við og það hefur ekki verið ráðið fólk strax til að fylla í þau skörð.“

Hún nefnir að fyrir skömmu hafi tveir starfsmenn verið á vakt að sinna 20 einstaklingum sem búa í sjálfstæðri búsetu. Starfsfólk bugist og líði illa yfir því að ná ekki að sinna íbúum nægilega vel í starfsemi sem sé mjög viðkvæm. 

Stór hópur labbaði út af starfsmannafundi

Þá undirstrikar Ingibjörg hversu lítið hlustað sé á raddir starfsfólk og ekki staðið við loforð um að ekki yrðu gerðar frekari breytingar á starfseminni.

„Það var gerð tilraun til að halda einn fund með okkur og hann var svo gersamlega misheppnaður að við vorum stór hópur sem labbaði út.

Á starfsmannafundi sem síðan var haldinn eftir ítrekaðar óskir voru starfsmönnum settar strangar samskiptareglur sem og skorður um umræðuefni.

„Hann var með alls konar fyrirmæli um að haga okkur vel áður en fundurinn byrjaði. Okkur fannst ekki mikið hlustað á okkur og í lok þess fundar var okkur beinlínis sagt að það verði ekki tekið neitt tillit til okkar athugasemda eða óska.“


Lumar þú á frétt? Sendu okkur fréttaskot á visir.is/frettaskot. Fullum trúnaði er heitið auk þess sem lesendur geta sent nafnlausar ábendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×