Sport

Sonur Rickys Hatton tjáir sig: „Elska þig, pabbi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hatton-feðgarnir, Campbell og Ricky.
Hatton-feðgarnir, Campbell og Ricky. getty/Carl Recine

Campbell Hatton, sonur hnefaleikakappans Ricky Hattons sem lést um helgina, hefur tjáð sig um fráfall föður síns.

Hatton fannst látinn á heimili sínu á sunnudaginn. Hann var 46 ára. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Hatton skilur eftir sig þrjú börn, dæturnar Millie og Fearne og soninn Campbell sem fæddist 2001. Hann var boxari eins og pabbinn en lagði hanskana á hilluna fyrr á þessu ári.

Í gær birti Campbell færslu á Instagram þar sem hann tjáði sig í fyrsta sinn um fráfall föður síns.

„Niðurbrotinn nær ekki utan um þetta,“ skrifaði Campbell. „Allir sögðu að ég væri tvífari þinn og líklega hafa sannari orð ekki verið sögð. Ég leit upp til þín í öllum þáttum lífsins. Ég get ekki lýst því hversu mikið ég mun sakna allra góðu tímanna sem ég mun aldrei gleyma. Ég trúi því bara ekki við fáum ekki fleiri. Elska þig, pabbi.“

Hatton vann 45 af 48 bardögum sínum á ferlinum og varð heimsmeistari í léttveltivigt og veltivigt. Hann barðist síðast 2012 en ætlaði að snúa aftur í hringinn seinna á þessu ári.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×