Sport

Hættir að verja mark Frakk­lands til að verja tíma með fjöl­skyldunni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bellahcene er hættur með landsliðinu eftir tvö mjög góð ár.
Bellahcene er hættur með landsliðinu eftir tvö mjög góð ár. Marco Steinbrenner/DeFodi Images via Getty Images

Franski landsliðmarkvörðurinn í handbolta, Samir Bellahcene, hefur ákveðið að hætta að leika með landsliðinu svo hann geti varið meiri tíma með fjölskyldunni. Hann verður þó áfram leikmaður Dinamo Búkarest.

„Eftir langan umhugsunartíma og samræður við starfsfólkið, sérstaklega Gino [Guillame Gille, landsliðsþjálfara], sem hefur stutt mig mikið, hef ég ákveðið að hætta að spila með landsliðinu.

Þetta er ákvörðun sem ég tek af persónulegum og fjölskyldutengdum ástæðum. Ég þarf meiri tíma með fjölskyldunni“ sagði Bellahcene í tilkynningu á vefsíðu franska handknattleikssambandsins.

Bellahcene spilaði fyrsta landsleikinn fyrir aðeins tveimur árum en vann gull á Evrópumótinu 2024 og brons á heimsmeistaramótinu 2025. 

Hann spilaði sinn síðasta landsleik fyrir Frakkland á HM í janúar en hann var einn af aðeins þremur markmönnum á mótinu sem varði betur en Viktor Gísli Hallgrímsson í íslenska markinu.

Besta hlutfallsmarkvarslan á HM 2025

  1. Emil Nielsen (Danmörk) - 44%
  2. Samir Bellahcene (Frakkland) - 43%
  3. Dominik Kuzmanovic (Króatía) - 43%
  4. Viktor Gísli Hallgrímsson (Ísland) - 40%
  5. Rangel da Rosa (Brasilía) - 40%
  6. Torbjørn Bergerud (Noregur) - 40%

Bellahcene átti líka stórleik í 39-32 sigri Frakklands gegn Íslandi á EM árið áður, varði átta skot í fyrri hálfleik og sautján í heildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×