Innlent

Allir þrír lausir úr haldi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Oddur Ævar Gunnarsson skrifa
Vítisenglar eru víðast hvar skilgreind sem glæpasamtök.
Vítisenglar eru víðast hvar skilgreind sem glæpasamtök. Vísir/Ívar Fannar

Allir þrír sem voru handteknir í umfangsmikilli aðgerð lögreglunnar og sérsveitarinnar í Auðbrekku í Kópavogi í gær hafa verið látnir lausir. 

Hjördís Sigurbjartsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hún segist ekki geta veitt upplýsingar um hvers vegna einstaklingarnir þrír voru handteknir en í samtali við Mbl.is segir Hjördís að einn þeirra sem lögregla hafði afskipti af hafi haft eggvopn í fórum sínum. 

Lögregla frétti af því að vélhjólaklúbburinn Hells Angels væri að halda veislu í húsnæði nærri Hamraborg í gærkvöldi og gerði út mikinn mannskap til að fylgjast með og ganga úr skugga um að allt færi vel fram.

Vítisenglarnir sögðu lögregluna aftur á móti fara yfir um og sóa peningum skattgreiðenda í að vakta vinahitting.

„Okkur ber skylda til að vera með eftirlit með öllu mögulegu, meðal annars samtökum eins og þessum. Við vorum með viðbúnað og það voru ýmis afskipti,“ segir Hjördís í samtali við fréttastofu. 

Hún bendir á að samtökin séu þannig skilgreind að þörf sé á öflugra eftirliti en víða annars staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×