Viðskipti innlent

Vilja selja Lands­bankann

Árni Sæberg skrifar
Hildur Sverrisdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Hildur Sverrisdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Vísir/Einar

Tíu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingmannafrumvarp um sölu ríkisins á Landsbankanum. 

Flutningsmenn frumvarpsins eru Sjálfstæðismennirnir Hildur Sverrisdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Jón Gunnarsson, Jón Pétur Zimsen, Vilhjálmur Árnason, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Ólafur Adolfsson, Guðlaugur Þór Þórðarson.

Uppfært: Mistök voru gerð við birtingu frumvarpsins og þar stóð að áætlað söluandvirði Landsbankans yrði um 200 milljarðar króna. Frumvarpið er á leið í endurprentun. Samkvæmt upplýsingum Vísis er reiknað með miklum mun hærra söluandvirði.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að tilefni þess og nauðsyn tengist þeirri krefjandi stöðu sem ríkissjóður stendur frammi fyrir. Fram til þessa hafi eignarhlutir ríkisins í Íslandsbanka verið seldir árið 2022, 2023 og 2025.

Í frumvarpinu sé lagt til sambærilegt fyrirkomulag og samkvæmt lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Frumvarpið kveði á um heimild til sölu á Landsbankanum hf. eingöngu og sem er einskorðuð við tiltölulega einfalda söluaðferð, sem þyki til þess fallin að fylgja meginreglum sem áhersla er lögð á við ráðstöfun ríkiseigna: gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni.

Einfalt frumvarp

„Efnisatriði frumvarpsins eru einföld. Ráðherra er heimilað, að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum, að ráðstafa þeim eignarhlut sem ríkissjóður á í Landsbankanum hf., að fenginni heimild í fjárlögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir markaðssettu útboði, einu eða fleirum, sem opið er öllum fjárfestum.“

Við sölumeðferðina skuli gæta að meginreglum um jafnræði, gagnsæi, hagkvæmni og hlutlægni. Sú skylda sé sérstaklega lögð á ráðherra við ráðstöfun samkvæmt söluaðferðinni sem frumvarpið kveður á um að tryggja gagnsæi í tengslum við ráðstöfunina, meðal annars með frumkvæðisbirtingu upplýsinga. Í því sambandi sé rétt að geta þess að allar upplýsingar sem skipta máli varðandi þátttöku í útboðinu eigi að koma fram í lýsingu sem birt er opinberlega. Landsbankinn sé skráð félag á markaði og því þurfi að huga að reglum um innherjaupplýsingar við upplýsingagjöf. 

Gera ráð fyrir því að ná markmiðum án teljandi ágreinings

Gert sé ráð fyrir því að ná megi markmiðum frumvarpsins á nokkuð einfaldan hátt og án teljandi ágreinings. Með því að söluaðferðirnar verði skýrt afmarkaðar í frumvarpinu sé ekki þörf á frekari aðkomu Alþingis umfram umfjöllun um frumvarpið sjálft. Aðhald verði tryggt með ríkri upplýsingaskyldu og þá sé sú skylda lögð á ráðherra að hann feli óháðum aðila að gera úttekt á því hvort meginreglum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, hafi verið fylgt við beitingu þeirra. Í samræmi við gagnsæiskröfur frumvarps þessa verði úttektin birt opinberlega. Ef ábendingar um ágalla koma í ljós þá fari það eftir eðli þeirra og alvarleika hvaða viðbrögð úttektin kallar á.

Gert sé ráð fyrir að sala eignarhlutar ríkisins fari fram í einni eða fleiri lotum með markaðssettu útboði. Hefðbundin sala með markaðssettu útboði fari fram með opnu útboði til allra fjárfesta, það er bæði almennra fjárfesta og fagfjárfesta. Undirbúningur að slíku útboði taki nokkrar vikur, þar sem útbúin er skráningarlýsing og kynningar haldnar til að meta mögulega eftirspurn. Auk þess þurfi að huga að markaðsaðstæðum varðandi tímasetningu útboða.

Gagnsæi muni koma niður á verði

Með markaðssettu útboði og þeim fastmótuðu reglum um framkvæmd slíks útboðs, sem lagðar eru til í frumvarpinu, sé áhersla lögð á fyrirsjáanleika og gagnsæi sem gera verði ráð fyrir að geti orðið á kostnað verðs. Fylgni við meginreglu frumvarpsins um hagkvæmni skoðist í því ljósi.

Í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar frá nóvember 2022 vegna útboðs vegna sölu Íslandsbanka hf., sem fram fór í mars sama ár, sé lagt til að viðkomandi fjármálafyrirtæki, í þessu tilviki Landsbankinn hf., komi ekki beint að sölunni. Ríkið eigi nú 98,2 prósent hlut í Landsbankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×