Körfubolti

Þjóð­verjar í undan­úr­slit þrátt fyrir stór­leik Doncic

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Franz Wagner og Luka Doncic voru stigahæstir á vellinum þegar Þýskaland sló Slóveníu úr leik í átta liða úrslitum á EM í körfubolta.
Franz Wagner og Luka Doncic voru stigahæstir á vellinum þegar Þýskaland sló Slóveníu úr leik í átta liða úrslitum á EM í körfubolta. epa/TOMS KALNINS

Heimsmeistarar Þýskalands urðu í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í körfubolta eftir sigur á Slóveníu, 99-91.

Luka Doncic fór mikinn í slóvenska liðinu en það dugði ekki til. Los Angeles Lakers-maðurinn skoraði 39 stig, tók tíu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Slóvenar leiddu stærstan hluta leiksins en Þjóðverjar voru sterkari í 4. leikhluta sem þeir unnu, 29-17.

Franz Wagner skoraði 23 stig fyrir þýska liðið, Dennis Schröder nítján og Daniel Theis fjórtán. Sá síðastnefndi tók einnig níu fráköst.

Slóvenía náði mest þrettán stiga forskot en liðið sprakk á limminu undir lokin. Doncic kom Slóvenum yfir, 85-86, þegar fjórar mínútur og tólf sekúndur voru eftir. Þetta reyndist næstsíðasta karfa liðsins í leiknum. Þjóðverjar skoruðu fjórtán af síðustu nítján stigum leiksins.

Þýskaland mætir Finnlandi í undanúrslitunum á föstudaginn. Í hinni undanúrslitarimmunni eigast Grikkland og Tyrkland við.

Þjóðverjar hafa ekki unnið EM síðan 1993, eða í 32 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×