Innlent

Um 100 þúsund lömbum slátrað hjá SS á Sel­fossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Benedikt Benediktsson, sem er framleiðslustjóri hjá SS. Hann er ánægður með að sláturtíðin sé hafin.
Benedikt Benediktsson, sem er framleiðslustjóri hjá SS. Hann er ánægður með að sláturtíðin sé hafin. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sláturtíðin er hafin á fullum krafti hjá SS á Selfossi en reiknað er með að slátra um hundrað þúsund lömbum í haust. 110 erlendir starfsmenn hafa verið ráðnir sérstaklega í sláturtíðina, flestir frá Póllandi.

Sláturtíðin hófst formlega í gær í sláturhúsi Sláturfélags Suðurlands við Fossnes á Selfossi. Sláturtíðin mun standa yfir í átta vikur og oft vilja vinnudagarnir verða langir því það er svo mikið að gera.

„Við erum bara alltaf spennt þegar þetta hefst og þetta er alltaf skemmtilegasti tími ársins þegar sláturtíðin hefst. Við erum bara mjög spennt fyrir haustinu. Mér líst vel á lömbin, við byrjuðum bara í gær en þau líta vel út og lofa góðu fyrir haustið,” segir Benedikt Benediktsson framleiðslustjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Benedikt segir að mun meira af lömbum verði slátrað nú í haust en síðasta haust, eða um 100 þúsund fjár. En hvernig stendur á því?

„Bændur vilja greinilega koma til okkar, það lítur út fyrir það,” segir Benedikt.

Um 150 manns vinna í sláturtíðinni en stór hópur starfsmanna kemur erlendis frá, aðallega frá Póllandi.

„Já, það kemur mikið af fólki erlendis frá, það er þannig,” segir Benedikt.

Um 150 manns hafa fengið vinnu í sláturtíðinni,þar af um 110 útlendingar, flestir frá Póllandi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað er verið að slátra mikið á dag þegar mest er?

„Við förum í svona tvö þúsund og sjö hundruð fjár á dag. Það er svona maxið hjá okkur.”

Og þú sjálfur, þú borðar væntanlega íslenskt lambakjöt?

„Að sjálfsögðu borða ég íslenskt lambakjöt, það er það besta,” segir Benedikt alsæll með að sláturtíðin sé hafin og hvað lömbin líta vel út eftir sumarið.

Reiknað er með að slátra um hundrað þúsund lömbum í haust hjá SS á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×