Fótbolti

Læri­sveinar Heimis fara illa af stað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimir getur ekki verið sáttur með byrjun sinna manna.
Heimir getur ekki verið sáttur með byrjun sinna manna. EPA/VASSIL DONEV

Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans í írska landsliðinu í fótbolta hafa farið vægast sagt illa af stað í undankeppni HM 2026.

Eftir að koma til baka og bjarga stigi gegn Ungverjalandi á heimavelli hélt Heimir með lærisveina sína til Armeníu í von um að landa mikilvægum útisigri gegn liði sem tapaði 5-0 fyrir Portúgal í 1. umferð undankeppninnar. Annað kom á daginn.

Það stefndi í markalausan fyrri hálfleik á Vazgen Sargsyan Republican-vellinum í Yerevan en allt kom fyrir ekki. Í uppbótartíma fékk heimaliðið nefnilega vítaspyrnu. Á punktinn fór Eduard Spertsyan, miðjumaður Krasnodar í Rússlandi, og skoraði framhjá Caoimhin Kelleher, markverði Brentford og írska landsliðsins.

Írar voru því marki undir í hálfleik. Segja má að um framför hafi verið að ræða þar sem liðið var 0-2 undir í hálfleik gegn Ungverjum í síðasta leik.

Því miður fyrir Írland var staðan orðin 2-0 Armeníu í vil eftir aðeins sex mínútna leik í síðari hálfleik. Grant-Leon Ranos, framherji Borussia Mönchengladbach í Þýskalandi, með markið.

Líkt og gegn Ungverjalandi minnkaði Evan Ferguson, framherji Roma á Ítalíu, muninn en að þessu sinni tókst Írlandi ekki að jafna metin. Raunar voru það heimamenn sem voru nær því að bæta við og var til að mynda mark dæmt af eftir að hafa verið skoðað af myndbandsdómara leiksins.

Lokatölur í Yerevan 2-1 og lærisveinar Heimis því aðeins með eitt stig í F-riðli að tveimur umferðum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×