Fótbolti

María flutt heim til Noregs eftir á­fallið í Frakk­landi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
María gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Brann gegn Manchester United á fimmtudaginn.
María gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Brann gegn Manchester United á fimmtudaginn.

María Þórisdóttir hefur fundið sér nýtt félag og samið við Brann í Noregi eftir vondan viðskilnað við Marseille í Frakklandi.

María samdi við franska liðið Marseille fyrir minna en mánuði en upplifði mjög stormasama daga hjá félaginu. Hún skrifaði undir samning þann 18. ágúst en aðeins fimm dögum síðar yfirgaf hún æfingaferð félagsins, í áfalli eftir framkomu þjálfara.

Þjálfarinn var síðan rekinn en María ákvað að snúa ekki aftur til Marseille og fór heim til Noregs. Hún hefur nú skrifað undir samning við Brann og verður því liðsfélagi íslensku landsliðskonunnar Diljá Ýr Zomers.

„Mér finnst Brann spila mjög spennandi fótbolta og félagið hefur náð frábærum árangri. Ég er spennt fyrir þeim góðu hlutum sem eru að gerast hér og hlakka til að taka þátt“ sagði María eftir að hafa skrifað undir samninginn.

Hjá Brann hittir hún fleiri samlanda sína, Freyr Alexandersson þjálfar karlalið Brann sem Sævar Atli Magnússon og Eggert Aron Guðmundsson spila með, en María er hálfíslensk, dóttir Þóris Hergeirssonar fyrrum handboltaþjálfara. Hún valdi að spila fyrir norska landsliðið í fótbolta en fór ekki með liðinu á EM í sumar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×