Fótbolti

Forráða­menn PSG ó­sáttir við lækna­t­eymi lands­liðsins

Siggeir Ævarsson skrifar
Desire Doue verður ekki með PSG næsta mánuðinn eða svo
Desire Doue verður ekki með PSG næsta mánuðinn eða svo Vísir/AP

Forráðamenn franska knattspyrnuliðsins PSG eru ekki á eitt sáttir með vinnubrögð franska landsliðsins en þeir Ousmane Dembélé og Désiré Doué, leikmenn PSG, meiddust báðir í leik Frakklands og Úkraínu á föstudagskvöldið.

PSG hafði sent knattspyrnusambandinu ítarlegar upplýsingar um líkamlegt ástand leikmannanna áður en landsliðið kom saman til æfinga þar farið var yfir hvað liðinu fannst vera ásættanlegt æfingaálag og hver hætta á meiðslum væri.

Doué byrjaði leikinn fyrir Frakka en fór meiddur af velli í upphafi seinni hálfleiks. Dembélé kom inn á í hans stað en fór svo sjálfur meiddur af velli rúmum hálftíma seinna. Reiknað er með að þeir verði báðir frá í 4-6 vikur og að meiðsli Dembéle séu nokkuð alvarlegri.

PSG hefur nú sent franska knattspyrnusambandinu bréf og gefið út yfirlýsingu þar sem félagið vonast eftir meira gegnsæi og betri samvinnu læknateyma félagsliða og landsliðsins í framtíðinni. 

Vill félagið meina að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra upplýsinga sem landsliðið fékk sent fyrir leikinn en hefði það verið gert hefði mátt koma í veg fyrir þessi meiðsli sem voru að þeirra dómi fyrirsjáanleg í ljósi aðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×