Fótbolti

Suárez dæmdur í sex leikja bann fyrir hrákann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez kom sér enn og aftur í klandur á dögunum.
Luis Suárez kom sér enn og aftur í klandur á dögunum. epa/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH

Luis Suárez, framherji Inter Miami, hefur verið dæmdur í sex leikja bann fyrir að hrækja á starfsmann Seattle Sounders í úrslitaleik deildabikars Norður- og Mið-Ameríku.

Á sunnudaginn tryggði Seattle sér deildabikarinn með því að vinna Inter Miami, 3-0, í úrslitaleik.

Eftir að lokaflautið gall lenti leikmönnum liðanna saman og Suárez var í hringiðunni þar. Hann greip í hálsinn á Obed Vargas, leikmanni Seattle, áður en hann hrækti í andlit öryggisstjóra Seattle, Gene Ramirez. Eftir leikinn baðst Suárez baðst afsökunar á framkomu sinni á Instagram.

Úrúgvæinn hefur nú verið úrskurðaður í sex leikja bann í deildabikarnum og spilar því væntanlega ekkert í keppninni á næsta ári. 

Samherjar Suárez, Sergio Busquets og Tomas Aviles, fengu tveggja og þriggja leikja bann fyrir þeirra þátt í ólátunum eftir leikinn.

Suárez er ekki óvanur að komast í kast við fótboltalögin. Þegar hann lék með Liverpool fékk hann átta leikja bann fyrir að beita Patrice Evra, þáverandi leikmann Manchester United, kynþáttaníði. Þá hefur hann þrisvar sinnum verið dæmdur í bann fyrir að bíta andstæðing.

Suárez, sem er 38 ára, gekk í raðir Inter Miami í fyrra. Hann hefur skorað 38 mörk í 77 leikjum fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×