Fótbolti

„Fagnið var fyrir mömmu og pabba“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Guðlaugur Victor fagnar markinu í kvöld
Guðlaugur Victor fagnar markinu í kvöld Vísir/Anton Brink

Ísland burstaði Aserbaíjsan 5-0 í undankeppni HM í kvöld. Liðið setti í sjötta gír í seinni hálfleik og var með öll völd á vellinum. Eftir hæga byrjun virtist Guðlaugur Victor Pálsson kveikja í liðinu með marki rétt fyrir hálfleik.

„Við vorum þolinmóðir, við náðum ekki að skapa okkur mikið og fengum einhver hálffæri en við vorum meira með boltann. Það var mikilvægt að fara inn í hálfleikinn með markið og góða tilfinningu. Í hálfleik töluðum við um hvað við þyrftum að gera betur og pökkuðum þeim svo bara saman í seinni hálfleik.“ - Sagði Guðlaugur Victor Pálsson, ánægður með sigur kvöldsins.

Guðlaugur Victor skoraði fyrsta mark Íslands í leiknum og fagnaði innilega og lyfti höndum upp til himins.

„Fagnið var fyrir mömmu og pabba. Þetta var fyrsta markið mitt hérna á Laugardalsvelli og fyrsta markið mitt á Íslandi fyrir framan þjóðina. Ég hefði óskað þess að þau væru upp í stúku en þau horfa á mig frá himninum og markið var fyrir þau.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×