Innlent

Um­boðs­maður af­greiddi 566 mál og skilaði 21 á­liti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Embættið hefur fengið nýtt merki.
Embættið hefur fengið nýtt merki.

Umboðsmanni Alþingis bárust 530 kvartanir árið 2024, sem er svipaður fjöldi og árin á undan. Alls voru 566 mál afgreidd. Þrettán mál voru tekin til skoðunar a eigin frumkvæði umboðsmanns og sautján slíkum málum lokið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Umboðsmanns fyrir árið 2024.

Þar segir einnig að embættið hafi skilað 21 áliti í 22 málum en hlutfall álita af heildarfjölda afgreiddra mála var 3,7 prósent. Átján málanna voru tilkomin vegna kvartana og þrjú vegna frumkvæðisathugana.

Um fjórðungi mála lauk með leiðréttingu eða skýringu stjórnvalda, samanborið við þrettán prósent árið 2022.

Embætti Umboðsmanns Alþingis hefur fengið nýtt merki, sem samanstendur af bókstöfunum U og A. Merkið er um leið myndgerving á andliti bergrisans, eins af landvættum Íslands.

Um 20 prósent mála vörðuðu tafir á afgreiðslu mála eða erinda af hálfu stjórnvalda, um ellefu prósent skatta og gjöld, og um átta prósent almenna starfsmenn, þá oftast ráðningar í opinber störf.

Umboðsmaður beindi sérstökum tilmælum til stjórnvalda í þrettán málum en í níu var farið að tilmælunum, í tveimur voru mál enn til meðferðar, í einu hafði ekki verið leitað aftur til stjórnvalda og í einu tilviki var ekki farið að tilmælum umboðsmanns.

Fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum um það í hvaða máli stjórnvöld fóru ekki að tilmælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×