Innlent

Læknir nýtti sér sjúkra­skrár til að afla við­skipta­vina

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Læknirinn starfaði hjá Landspítalanum.
Læknirinn starfaði hjá Landspítalanum. Vísir/Vilhelm

Læknir á Landspítalanum nýtti sér aðgang sinn að sjúkraskrám til að afla einkafyrirtæki sem hann starfaði hjá meðfram læknastörfum viðskiptavina með því að beina sjúklingum í viðskipti við fyrirtækið með smáskilaboðum.

Persónuvernd birti útdrátt úr úrskurði sínum í málinu í dag en DV greindi fyrst frá. Málið tók stofnunin upp að eigin frumkvæði en niðurstaða hennar var að læknirinn hefði brotið í bága við persónuverndarlög. Embætti landlæknis hafði samkvæmt upplýsingum á vef Persónuverndar áður komist að þeirri niðurstöðu að læknirinn hafi ekki haft heimild til þessara uppflettinga í sjúkraskrám samkvæmt lögum.

Persónuvernd komst að niðurstöðu í málinu 16. júlí síðastliðinn en birti ekki útdrátt úr úrskurði sínum fyrr en í dag. Viðkomandi læknir er ekki nafngreindur í útdrættinum né heldur það fyrirtæki sem hann starfaði fyrir.

Læknirinn bar fyrir sig að vinnsla sjúkraskrárgagnanna hefði samrýmst persónuverndarlöggjöfinni og farið fram í umboði Landspítalans. Persónuvernd féllst ekki á það með hliðsjón af niðurstöðu embættis landlæknis um að lagaheimild hefði ekki staðið til umræddra uppflettinga í sjúkraksrám. Vinnslan var jafnframt ekki talin hafa farið fram með lögmætum hætti gagnvart hinum skráðu eða í málefnalegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×