Fótbolti

Heljar­mennið sem fagnaði eins og Schwarzenegger

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Federico Baschirotto lítur út eins og vaxtarræktarkappi.
Federico Baschirotto lítur út eins og vaxtarræktarkappi.

Nýliðar Cremonese í ítölsku úrvalsdeildinni fengu óskabyrjun á tímabilinu er þeir unnu AC Milan á San Siro, 1-2. Varnarmaður Cremonese sló í gegn í leiknum.

Federico Baschirotto stóð vaktina í vörn Cremonese og lét líka til sín taka á hinum enda vallarins. Hann kom gestunum yfir á 28. mínútu með skallamarki.

Baschirotto er naut að burðum og fagnaði markinu með frægri „pósu“ eins og annað heljarmenni, sjálfur Arnold Schwarzenegger.

Baschirotto átti einnig þátt í sigurmarki Cremonese sem Federico Bonazzoli skoraði með glæsilegri klippu. Bonazzoli hefur eflaust ekki leiðst að skora gegn Milan en hann er stuðningsmaður erkifjendanna í Inter.

Cremonese hafði aldrei unnið fyrsta leik sinn á tímabili í efstu deild en breyting varð á því um helgina.

Baschirotto er uppalinn hjá Cremonese og var á mála hjá félaginu til 2019 en spilaði aldrei fyrir það. Baschirotto lék með Lecce á árunum 2022-25 og átti stóran þátt í því að liðið hélt sér í ítölsku úrvalsdeildinni þrjú tímabil í röð.

Massimiliano Allegri stýrði Milan í fyrsta sinn í ellefu ár um helgina. Hann tók aftur við liðinu í sumar en hann stýrði því áður á árunum 2010-14 og gerði það að ítölskum meisturum 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×