Enski boltinn

Chiesa núna á­kveðinn í að vera á­fram hjá Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Federico Chiesa fagnar sínu fyrsta marki í ensku úrvalsdeildinni, síðasta föstudag.
Federico Chiesa fagnar sínu fyrsta marki í ensku úrvalsdeildinni, síðasta föstudag. Getty/Robbie Jay Barratt

Ítalinn Federico Chiesa og umboðsmaður hans hafa nú tjáð yfirmönnum hjá Liverpool að það sé skýr ósk Chiesa að halda kyrru fyrir hjá félaginu.

Það hreinlega sprakk allt á Anfield síðastliðið föstudagskvöld þegar Chiesa kom Liverpool yfir gegn Bournemouth skömmu fyrir lok fyrsta leiks tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.

Hann hafði komið inn á sem varamaður og staðan var 2-2 þegar boltinn hrökk til hans í teignum, var fljótur að átta sig og skoraði markið mikilvæga. Mohamed Salah bætti svo við fjórða markinu í uppbótartíma þegar gestirnir voru farnir að taka áhættu til að jafna metin.

Og núna er ljóst að Chiesa ætlar sér að upplifa fleiri svona stundir á Anfield því Fabrizio Romano greinir frá því að Chiesa hafi komið skilaboðum þess efnis til sinna yfirmanna.

Chiesa íhugaði að yfirgefa Liverpool í sumar, um mánaðamótin júní-júlí, þegar Liverpool hafði hafnað tilboðum í Luis Diaz, keppinaut hans um stöðu í liðinu, og Chiesa hafði verið skilinn eftir þegar liðið fór í sína Asíureisu.

Núna er Diaz hins vegar farinn, til Bayern München, og það breytir stöðunni fyrir Chiesa sem kom til Liverpool frá Juventus fyrir ári síðan, fyrir 12,5 milljónir punda. Hann meiddist hins vegar snemma tímabils og lék aðeins samtals 116 mínútur í sex leikjum í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, án þess að skora mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×