Enski boltinn

Ekki ógnað eins lítið í tvö og hálft ár

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gyökeres komst lítið í takt við leikinn í gær.
Gyökeres komst lítið í takt við leikinn í gær. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Viktor Gyökeres, framherji Arsenal, tókst ekki að stimpla sig inn hjá liðinu í 1-0 sigri á Manchester United á Old Trafford í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Lítil ógn var af þeim sænska.

Gyökeres var lítt áberandi í leik gærdagsins og virtist skorta leikform. Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, sagði eftir leik „að hann hefði gert marga hluti vel“ en þó þyrfti starfslið hans að vinna vel með nýja framherjanum.

Arsenal greiddi Sporting frá Lissabon 64 milljónir punda fyrir framherjann í sumar og miklar kröfur gerðar til hans þar sem Skytturnar hefur skort markaskorara uppi á topp síðustu tímabil.

Gyökeres átti ekki eina einustu skottilraun í leiknum á Old Trafford. Það hefur ekki gerst síðan hann spilaði með Coventry City gegn Blackburn Rovers í apríl 2023 að hann komi ekki skoti í átt að marki. Hann hafði átt skot að marki 69 leiki í röð fyrir leikinn í gær.

Áhugavert verður að fylgjast með framhaldi sænska framherjans í Lundúnum en líkt og Arteta sagði eftir leik er vinna fram undan. Arteta sagði jafnframt að lið hans hafi getað nýtt styrkleika Gyokeres betur með því að koma sendingum aftur fyrir vörn United - „um sjö eða átta tækifæri hafi verið til þess að senda boltann í gegn“ - en þau ekki nýtt.

Gyökeres til varnar var sóknarleikur Arsenal ekki upp á marga fiska stærstan hluta sem hann spilaði í gær. Gyökeres var skipt af velli fyrir Þjóðverjann Kai Havertz á 60. mínútu.


Tengdar fréttir

Saliba við Hjörvar: „Ekki víti og ég hafði engar áhyggjur“

William Saliba, miðvörður Arsenal, viðurkenndi í samtali við Hjörvar Hafliðason að liðið ætti mjög mikið inni þrátt fyrir að það næði að landa 1-0 sigri gegn Manchester United í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Fernandes við Hjörvar: „Mistök okkar allra“

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, var skiljanlega niðurlútur þegar hann ræddi við Hjörvar Hafliðason á Sýn Sport eftir 1-0 tapið gegn Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×