Enski boltinn

Segir vanda­málin enn til staðar og spáir Man. Utd tíunda sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Matheus Cunha var líflegur í liði Manchester United í gær en náði ekki að skora frekar en aðrir leikmenn liðsins.
Matheus Cunha var líflegur í liði Manchester United í gær en náði ekki að skora frekar en aðrir leikmenn liðsins. Getty/Stu Forster

Roy Keane spáir því að Manchester United endi um miðja deild í ensku úrvalsdeildinni. Nýir leikmenn hafi heillað í 1-0 tapinu gegn Arsenal en vandamálin séu enn til staðar hjá liðinu.

„Væntingarnar hjá United eru orðnar svo litlar að jafnvel Gary [Neville] sagði í lýsingunni að allir væru sáttir eftir 1-0 tap. Þeir verða að gera betur. Þetta veldur mér áhyggjum,“ sagði Keane þegar hann fór yfir leikinn í útsendingu Sky Sports.

Gamli United-fyrirliðinn var þó nokkuð hrifinn af því sem að Matheus Cunha og Bryan Mbeumo buðu upp á fram á við en eina mark leiksins skoraði Riccardo Calafiori með skalla eftir hornspyrnu.

„Ég held að með komu þessara nýju leikmanna og miðað við það sem þeir sýndu þá sé það hughreystandi. Þeir litu út eins og Manchester United leikmenn, tilbúnir að takast á við pressuna. Þeir eru góðir karakterar,“ sagði Keane.

„En við höfum sagt það oft áður að það eru vandræði þarna baka til. Það er verið að tala um að þeir séu ekki leiðinlegir en á endanum snýst þetta um að skora mörk til að vinna fótboltaleiki því annars ertu alltaf undir pressu,“ sagði Keane en bætti við:

„Væntingarnar hjá félaginu eru svo lágar að það eru nánast allir bara ánægðir,“ og var þá spurður hvar hann teldi að United myndi enda:

„Tíunda, mögulega níunda sæti.“

„Sumir af nýju mönnunum gáfu góð fyrirheit. Þeir fóru fram völlinn af smá krafti. Hlutirnir munu batna og þetta er erfitt gegn Arsenal, en engin mörk og enn eitt tapið. Það eru enn vandamál til staðar hjá Manchester United,“ sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×