Veður

Gular við­varanir öðrum megin og 28 stiga hiti hinum megin

Jón Þór Stefánsson skrifar
Í dag eru bæði í gildi gular viðvaranir og spáð blíðskaparveðri.
Í dag eru bæði í gildi gular viðvaranir og spáð blíðskaparveðri. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil hæð norðvestur af Írlandi stýrir veðrinu næstu daga. Suðvestanátt dælir mjög röku og hlýju lofti til okkar. Þetta kemur fram í textaspá Veðurstofunnar.

Í dag er búist við vindstrengjum við fjöll á norðvestanverðu landinu. Varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferð, en þrjár gular viðvaranir eru í gildi. Þær eru í Breiðafirði, á Vestfjörðum og á Ströndum og norðurlandi vestra.

Það verður skýjað vestanlands og dálítil væta norðvestantil, en þurrt og bjart að mestu fyrir austan. Hiti 8 til 15 stig, en 18 til 28 stig á Austurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt. Dálítil rigning norðantil á landinu, en léttir til síðdegis. Skýjað með köflum og lengst af þurrt syðra, en stöku síðdegisskúrir. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast syðst.

Á þriðjudag:

Hæg suðvestlæg átt. Skýjað að mestu og lítilsháttar væta, en bjart með köflum austanlands. Hiti víða 12 til 16 stig.

Á miðvikudag:

Hæg breytileg átt og yfirleitt léttskýjað með hita 12 til 18 stig.

Á fimmtudag og föstudag:

Útlit fyrir vestlæga átt, skýjað að mestu og lítilsháttar væta á víð og dreif, en áfram hlýtt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×