Erlent

Rússar myndu nota Donbas til að ráðast enn lengra inn í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí virðist binda vonir við að Trump standi í lappirnar gagnvart Pútín.
Selenskí virðist binda vonir við að Trump standi í lappirnar gagnvart Pútín. Getty/LightRocket/SOPA/Stefano Constantino

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti segir ekki koma til greina að gefa eftir Donbas-héruðin, ekki síst vegna þess að Rússar myndu nota þau sem stökkpall fyrir frekari landvinninga síðar meir.

Selenskí ræddi við blaðamenn í gær, þar sem hann sagði meðal annars að Vladimir Pútín Rússlandsforseti vildi hreinlega ekki sjá sjálfstæða Úkraínu. Það mætti þannig ekki gerast að Úkraínumenn yrðu þvingaðir af hálfu Bandaríkjamanna til að samþykkja kröfur Rússa um eftirgjöf lands.

Forsetinn sagðist ekki telja að Donald Trump Bandaríkjaforseti styddi kröfugerð Rússa og sagðist vonas til þess að hann myndi sannarlega freista þess að miðla málum.

Trump hefur ítrekað sagt að Úkraína muni líklega þurfa að gefa eftir land til að ná friðarsamningum við Rússa.

Að sögn Selenskís er ekkert sem bendir til þess að Rússar séu að undirbúa mögulegt vopnahlé, þrátt fyrir boðaðan fund Pútín og Trump. 

„Við munum ekki yfirgefa Donbas. Við getum ekki gert það,“ sagði Selenskí þegar hann ræddi við blaðamennina. „Ég hef ekki heyrt neitt, ekki eina einustu tillögu, sem myndi tryggja að nýtt stríð myndi ekki hefjast á morgun og Pútín reyna að leggja undir sig að minnsta kosti Dnipro, Zaporizhzhia og Kharkív.“

Selenskí staðfesti að hann yrði ekki viðstaddur fund Pútín og Trump í Alaska en sagðist vonast til þess að funda með þeim í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×