Innlent

Ein­nota plast­vörur fái sér­staka merkingu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsmálaráðherra.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku og loftslagsmálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt drög að reglugerð um plastvörur, þar sem kveðið er á um skyldu til að merkja sérstaklega þær plastvörur sem eru einnota.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að ætlunin með reglugerðinni sé að innleiða tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins sem ætlað er að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og fjölnota vara fremur en einnota.

Nýju merkingunum sé ætlað að upplýsa neytendur um að varan innihaldi plast, um það hvaða úrgangsförgunaraðferðir eigi að forðast fyrir vöruna, og um þau neikvæðu umhverfisáhrif sem fylgja því að dreifa rusli eða öðrum óviðeigandi aðferðum við förgun vörunnar.

Um er að ræða vörur sem eru í almennri notkun, eins og tíðavörur, blautþurrkur, tóbaksvörur sem innihalda plast, og bolla og glös fyrir drykkjarvörur.

„Samkvæmt breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur legið fyrir frá árinu 2020 að þessar kröfur um merkingar verði innleiddar hér á landi og hafa fyrirtæki á íslenskum markaði mörg hver nú þegar merkt vörur sínar og með því tekið skrefið sem nú stendur til að festa í reglugerð.“

Jafnframt er kveðið á um landsbundin, töluleg markmið um söfnun veiðarfæraúrgangs sem byggir á skyldu hvers ríkir um að ríki setji sér landsbundin söfnunarmarkmið fyrir veiðarfæri sem innihalda plast.

Nánar á vef Stjórnarráðsins og í Samráðsgátt stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×