Veður

27 daga frost­lausum kafla lokið

Atli Ísleifsson skrifar
Á Þingvöllum kólnaði í nótt og fór í 1,3 gráðu frost.
Á Þingvöllum kólnaði í nótt og fór í 1,3 gráðu frost. Vísir/Arnar

Nú í morgunsárið er hægur vindur á landinu og víða bjart og fallegt veður. Það kólnaði niður fyrir frostmark á Þingvöllum í nótt, fór niður í 1,3 gráðu frost, en þetta var í fyrsta sinn sem mældist frost á landinu síðan 13. júlí.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. „Hann varð því 27 daga langur kaflinn yfir mitt sumarið þar sem hvergi varð vart við næturfrost. Síðast 13. júlí þegar veðurstöðin í Þykkvabæ fór lægst í -0,1°C. Sumarið 2021 stóð frostlausi kaflinn á landinu frá 1. júlí til 6. september, eða í 67 daga,“ segir í færslu Einars.

Á vef Veðurstofunnar segir að lægð úr suðvestri nálgist nú landið og fylgi henni hægt vaxandi suðaustanátt og mun þykkna upp sunnan- og vestantil á landinu. Þar má reikna með átta til fimmtán metrum á sekúndu síðdegis og rigningu með köflum. Á norðaustanverðu landinu verður hins vegar vindur hægari og lengst af þurrt.

Gera má ráð fyrir að hiti verði á bilinu níu til átján stig að deginum og svalast við norðurströndina.

Á morgun fer lægðarmiðjan austur yfir landið. Áttin verður því breytileg, víða gola eða kaldi og rigning eða súld með köflum í flestum landshlustum. Hiti 8 til 15 stig, mildast á Vesturlandi. Annað kvöld styttir upp sunnanlands.

Á miðvikudag er svo útlit fyrir að veður verði með rólegasta móti, hægur vindur og einhverjar skúrir á stangli.

Spákort fyrir klukkan 15.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Breytileg átt 5-10 m/s og rigning með köflum. Hiti 9 til 16 stig, mildast á Vesturlandi. Úrkomulítið sunnanlands undir kvöld

Á miðvikudag: Hæg vestlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum og skúrir á víð og dreif, en þurrt suðvestantil. Hiti 8 til 15 stig, svalast við norðurströndina.

Á fimmtudag: Vestan 8-13 og skúrir, en léttskýjað um landið suðaustanvert. Hiti 8 til 14 stig, mildast suðaustantil.

Á föstudag: Suðvestanátt og fer að rigna, en lengst af þurrt um landið austanvert. Hlýnandi veður.

Á laugardag og sunnudag: Suðvestan- og vestanátt og rigning með köflum, en þurrt og hlýtt suðaustanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×