Fótbolti

Ólafur skoraði en Aalesund fékk skell

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson hefur nú skorað tvö mörk í sumar.
Ólafur Guðmundsson hefur nú skorað tvö mörk í sumar. @aalesundsfk

Aalesund tapaði 5-1 á útivelli á móti Lilleström í norsku b-deildinni í fótbolta. Sárabótamark frá Íslendingi breytti litlu um það.

Ólafur Guðmundsson byrjaði í þriggja manna vörn Aalesund en Davíð Snær Jóhannsson kom inn á sem varamaður á 61. mínútu þegar staðan var orðin 3-0 fyrir heimamenn í Lilleström.

Ólafi tókst að minnka muninn á 72. mínútu. Þetta var annað mark Ólafs í síðustu fimm deildarleikjum.

Lilleström innsiglaði síðan endanlega sigurinn með fjórða og fimmta markinu undir lokin. LSK liðið hafði einnig klikkað á vítaspyrnu í byrjun seinni hálfleiks. Ólafur fékk dæmt á sig vítið.

Lilleström náði tíu stiga forskoti á toppnum með þessum sigri en Aalesund er í þriðja sæti.

Þetta var fyrsta deildartap Aalesund mann síðan 18. júní en liðið var fyrir leikinn búið að spila sjö deildarleiki í röð án þess að tapa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×